Innlent

Endurskoða þurfi fjármögnun vegakerfisins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðjón M. Ólafsson er formaður bæjarráðs Fjallabyggðar
Guðjón M. Ólafsson er formaður bæjarráðs Fjallabyggðar arnar halldórsson

Endurskoða þarf fjármögnun vegakerfisins að mati formanns bæjarráðs Fjallabyggðar. Hann leggur til að kílómetragjald verði sett á alla ökumenn óháð mannvirkjum.

Í gær fjölluðum við um ósætti meðal íbúa í Fjallabyggð vegna frumvarps innviðaráðherra um fyrirhugaða gjaldtöku í öll jarðgöng landsins til þess að fjármagna Fjarðarheiðargöng.

Formaður bæjarráðs Fjallabyggðar sagði óforsvaranlegt að rukka ætti fólk fyrir að keyra í gegnum göng á borð við Múlagöng og Strákagöng þegar þau uppfylla ekki öryggiskröfur.

Bæjarstjóri Fjallabyggðar segir í umsögn frumvarpið að gjaldtakan muni leggjast afar þungt á fámenn byggðarlög, þá sérstaklega Fjallabyggð þar sem íbúar gætu ekki farið á milli bæjarhluta til að sækja almenna þjónustu eða atvinnu innan bæjarfélagsins, né út úr bænum nema gegn gjaldi um löngu úreld samgöngumannvirki.

Formaður bæjarráðs Fjallabyggðar segir að hætta þurfi að horfa á það hvernig einstaka verkefni skulu fjármögnuð og að leggja þurfi áherslu á það hvernig þjóðin geti sameiginlega borið ábyrgð á uppbyggingu innviða í landinu. Innviðakerfið sem viðhaft hafi verið á Íslandi til að fjármagna vegakerfið virki ekki.

„Í fyrsta lagi hefur þeim fjármunum sem bílar og bílaeigendur eru skattlagðir um aldrei verið varið að fullu til innviðauppbyggingar, þeir hafa farið í önnur verkefni að hluta til,“ sagði Guðjón M. Ólafsson, formaður bæjarráðs Fjallabyggðar.

Endurskoða þurfi aðferðafræðina.

„Ég nefni sem tillögu. Er ekki einfaldast að setja kílómetragjald óháð mannvirkjum á alla. Þá sitja allir við sama borð. Þú borgar bara eftir þeirri notkun sem þú notar. Þeir sem nota ekki innviðakerfið þeir borga þá ekki. Hinir sem notað það, þeir borga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×