Á Lýtingsstöðum er ferðaþjónusta samhliða búskapnum á bænum. Boðið er um á hestaferðir, gistingu og þess háttar. En það sem vekur mesta athygli á bænum eru torfhúsin, sem eru táknrænn íslenskur byggingararfur, sem allir hafa gaman af að skoða og kynna sér, ekki síst ferðamenn, innlendir og erlendir. Torfhúsin voru hlaðin 2015.
„Þetta er í raun hesthús úr íslensku torfi og það er svona allskonar sem tengist íslenska hestinum, allt frá gömlum reiðtygjum, reipi, klyfbera og svona ýmislegt. Við erum stundum að taka á móti hópum og svo koma líka einstaklingar til okkar hingað. Fólk er að jafnaði mjög hrifið af þessu. Hrifin af hestunum, torfinu og það er mjög gaman að geta frætt ferðamennina um okkar menningararf hérna á Íslandi,“ segir Evelyn Ýr Kuhne, ferðaþjónustubóndi á Lýtingsstöðum.

Evelyn er menningarfræðingur að mennt frá Þýskalandi en eftir að hún flutti til Íslands fyrir 27 árum fékk hún mikinn áhuga á torfhúsum og ákvaða því að reisa þannig hús á jörðinni og tengja það við hestana sína. Evelyn er líka heilluð af íslenska fjárhundinum.

„Já, hann Sómi okkar, en hann heitir fullu nafni Reykjavalla Íslands Sómi og er stoltið okkar hér á Lýtingsstöðum. Hann er bara hluti af því sem við erum að gera hér, að kynna menningararfinn,“ segir Evelyn Ýr.
