Viðskipti innlent

Áframhaldandi sáttaviðræður milli Ardian og Samkeppniseftirlitsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Rannsóknarfrestur Samkeppniseftirlitsins á kaupum Ardian á Mílu hefur verið framlengdur.
Rannsóknarfrestur Samkeppniseftirlitsins á kaupum Ardian á Mílu hefur verið framlengdur. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur fallist á ósk Ardian um framlengdan frest á rannsókn samruna Ardian og Mílu. Fresturinn var framlengdur um tuttugu daga og rennur því út þann 15. september næstkomandi.

Í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins segir að með framlengingunni sé verið skapa ráðrúm fyrir frekari viðræður milli Ardian og eftirlitsins.

Á þriðjudaginn í þessari viku funduðu SKE og Ardian en á þeim fundi var Ardian upplýst um stöðu athugunar eftirlitsins á framkomnum umsögnum Fjarskiptastofu og fjarskiptafyrirtækja sem og viðbrögðum Ardian og Símans við þeim. Flestir umsagnaraðilar töldu að tillögur Ardian væru ekki fullnægjandi en bæði Síminn og Ardian hafa mótmælt því.

„Á fundinum kom jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hefði fullan hug á áframhaldandi sáttaviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á,“ segir í bréfi sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér í dag.

Á fundinum var einnig ítrekað að rof á eignatengslum Símans og Mílu væri jákvætt. Þó sé það verkefni eftirlitsins að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.

„Einnig væri það frummat eftirlitsins, á þessu stigi rannsóknar, að framboðin skilyrði væru ekki fullnægjandi. Var þá á fundinum rætt um önnur möguleg skilyrði. Sú umræða hélt áfram á fundi Samkeppniseftirlitsins og Ardian í morgun,“ segir í bréfinu en niðurstaða fundarins var að ástæða væri til að halda viðræðum áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×