Erlent

Skipaði sjálfan sig margfaldan ráðherra á bak við tjöldin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Scott Morrison, fyrrverandi ráðherra með meiru.
Scott Morrison, fyrrverandi ráðherra með meiru. AP/Rick Rycroft

Í ljós hefur komið að Scott Morrison, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, útnefndi sjálfan sig ráðherra í fimm ráðuneytum til viðbótar á meðan hann var enn forsætisráðherra, án þess að upplýsa nokkurn mann. 

Var ráðherrunum sem töldu sig vera einir um sín embætti ekki einu sinni gert viðvart.

Það voru blaðamenn sem komu upp um Morrison en Anthony Albanese, núverandi forsætisráðherra, segist ekki skilja hvernig forvera sínum datt þetta í hug og að hann bíði nú eftir ráðgjöf um mögulegar lagalegar afleiðingar málsins. 

Albanese segist reiðubúinn til að breyta lögum til að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig.

Hávær köll heyrast nú eftir því að Morrison segi af sér sem þingmaður en hann segir útnefningarnar hafa verið neyðarúrræði á tímum kórónuveirufaraldursins.

Á tímabilinu frá mars 2020 til maí 2021 skipaði Morrison sjálfan sig heilbrigðis, fjármála, iðnaðar, vísinda og orkumálaráðherra, án þess að það væri opinberað, hvorki gagnvart almenningi né í sumum tilvikum, ráðherrunum sjálfum.

Albanese segir óskiljanlegt hvernig þetta gat gerst né segist hann skilja hvers vegna þetta var gert á bak við tjöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×