Gönguleiðin að eldgosinu í Meradölum er talsvert torfærari en leiðin í Geldingadali, sem farin var að eldgosinu í fyrra. Stórgrýtt er á hluta leiðarinnar í Meradali og ekki þarf mikið til að fólk misstígi sig.
Dæmi eru um að björgunarsveitir hafi þurft að skutla ferðamönnum til baka að bílastæðinu vegna þess að ekkert er eftir af skóbúnaði þeirra. Ferðamenn hafi bókstaflega gengið af sér skóna.
Áki Pétursson, björgunarsveitarmaður, var við gosstöðvarnar í gær og segir mjög algengt að fólk fari illa skóað. Margir hugsi frekar um myndina fyrir Instagram en að gangan gangi vel.
„Rosa margir í gær voru bara í sléttum strigaskóm. Það eru líka rosalega margir sem eru að fara í hvítum, glænýjum strigaskóm og punta sig upp til að vera fínir á myndum,“ segir Áki.
Hann segist hafa rætt við stúlkuna, sem mynduð er hér að ofan í inniskóm, og hún hafi ákveðið að fara á inniskónum frekar en gönguskóm af því að gönguskórnir væru svo ljótir og pössuðu ekki við fatnaðinn sem hún valdi sér.