Erlent

Vörðust um­fangs­mestu tölvu­á­rás á Eist­land frá 2007

Samúel Karl Ólason skrifar
Kaja Kallas er forsætisráðherra Eistlands.
Kaja Kallas er forsætisráðherra Eistlands. EPA/TOMS KALNINS

Ráðamenn í Eistlandi segjast hafa varist umfangsmestu tölvuárás á landið frá 2007. Árásin hófst í gær, skömmu eftir að tilkynnt var að sovéskir minnisvarðar yrðu fjarlægðir úr almannarými í Eistlandi.

Rússnesku tölvuþrjótarnir í hópnum Killnet hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Þeir sögðust hafa gert árás á rúmlega tvö hundruð stofnanir og fyrirtæki í Eistlandi og vísuðu þeir til þess að Eistar ætluðu að fjarlægja minnisvarða.

Árásin sem gerð var árið 2007 var einnig á vegum Rússa en hún var gerð eftir að sovéskur minnisvarði var færður úr miðborg Tallinn. Sú árás stóð yfir í 22 daga.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, greindi frá því í gær að allir sovéskir minnisvarðar yrðu fjarlægðir úr almannarýmum.

„Sem tákn um kúgun og sovéskt hernám hafa þeir orðið uppspretta aukinnar félagslegrar spennu – og á þessum tíma verðum við að halda ógnum við allsherjarreglu í lágmarki,“ sagði Kallas á Twitter, en eistnesk stjórnvöld hafa gagnrýnt Rússa harðlega fyrir innrás þeirra inn í Úkraínu.

Sjá einnig: Eistar fjarlægja alla sovéska minnisvarða

Luukas Ilves, úr efnahags og samskiptaráðuneyti Eistlands, tjáði sig um árásina í morgun. Hann sagði á Twitter að árásin hefði verið sú umfangsmesta frá 2007 en illa hefði verið staðið að henni. Því hefði hún lítil áhrif haft í Eistlandi og flestir íbúar hefðu ekki einu sinni tekið eftir henni.

Ríkisútvarp Eistlands hefur eftir embættismönnum að rússnesku tölvuþrjótarnir hafi meðal annars beitt svokölluðum DDOS-árásum, þar sem beindu mikilli netumferð á vefsvæði stofnana og fyrirtækja með því markmiði að setja þau vefsvæði á hliðina. Þeir reyndu einnig að senda tölvupósta til að plata fólk til að gefa upp lykilorð og þá hafa nokkrir tölvuvírusar fundist.

Tölvuþrjótar Killnet gerðu einnig tölvuárásir á stofnanir í Litháen í síðustu viku, eftir að þing ríkisins samþykkti ályktun um að Rússland væri hryðjuverkaríki.


Tengdar fréttir

Eistar meina flestum Rússum inngöngu í land sitt

Eistland tilkynnti það í morgun að frá byrjun næstu viku mun landið meina allmörgum Rússum inngöngu í landið. Rússar sem hafa fengið vegabréfsáritun frá eistneskum yfirvöldum munu ekki lengur fá að heimsækja Eistland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×