Viðskipti innlent

Ramma­gerðin kaupir Glófa

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bjarney Harðardóttir er eigandi Rammagerðarinnar. 
Bjarney Harðardóttir er eigandi Rammagerðarinnar.  Aðsend

Eigendur Rammagerðarinnar hafa keypt allt hlutafé ullarvöruframleiðandans Glófa ehf. Fyrirtækið var áður í eigu Páls Kr. Pálssonar og Helgu Lísu Þórðardóttur. Páll er einnig framkvæmdastjóri félagsins og mun hann halda starfi sínu þar áfram.

Glófi selur vörur sínar undir vörumerkinu VARMA og eru vörurnar seldar á 120 stöðum um allt land. Þá er varan einnig seld erlendis, mest í Þýskalandi, á Norðurlöndunum og í Norður-Ameríku.

„Við höfum mikla trú á því sem Glófi og vörumerkið Varma eru að vinna að, skapa verðmæti úr íslenskri ull. Glófi er mjög vel rekið fyrirtæki með spennandi framtíðarmöguleika. Fyrirtækið passar vel við áherslur Rammagerðarinnar sem hefur stutt við vöxt og nýsköpun á sviði hönnunar og handverks hér á landi,“ segir Bjarney Harðardóttir eigandi Rammagerðarinnar.

Páll segir það vera spennandi að vinna með nýjum eigendum og að það sé dýrmætt að fá inn nýja þekkingu og reynslu til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu.

„Með aukinni umhverfisvitund þá eru neytendur um allan heim að átta sig á verðmæti íslensku ullarinnar og mikilvægi umhverfisvænnar framleiðslu. Íslenska ullin hefur reynst okkur Íslendingum vel en við höfum einnig verið að þróa vinnslu á lambsull sem er samkeppnishæf við mýkri tegund af ull en þar liggja mikil tækifæri“ segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×