Handbolti.is greinir frá því í dag að Ólafur sé á leið í aðgerð vegna ökklameiðsla og að hugsanlegt sé að hann verði fjarverandi í allt að þrjá mánuði af þeim sökum.
Ólafur er algjör lykilmaður í vörn og sókn í liði KA, eftir að hafa snúið aftur til Íslands úr atvinnumennsku sumarið 2020, og fyrr á þessu ári skrifaði hann undir nýjan samning við félagið til tveggja ára.
Ólafur skoraði 66 mörk þegar KA endaði í 7. sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð, en liðið féll svo úr leik í 8-liða úrslitum gegn Haukum eftir æsispennandi einvígi.
Nú styttist í að ný leiktíð hefjist í Olís-deildinni en KA sækir einmitt Hauka heim í fyrstu umferð, 9. september, og tekur svo á móti ÍBV viku síðar í fyrsta heimaleik sínum.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.