Erlent

Rússar og Úkraínumaður reyndu að brjótast inn í vopnaverksmiðju í Albaníu

Árni Sæberg skrifar
Verksmiðjan í Gramsh var á árum áður notuð til framleiðslu AK-47 riffla. Þessi mynd er frá verksmiðju Kalashnikov í Rússlandi og tengist fréttinni því ekki beint.
Verksmiðjan í Gramsh var á árum áður notuð til framleiðslu AK-47 riffla. Þessi mynd er frá verksmiðju Kalashnikov í Rússlandi og tengist fréttinni því ekki beint. Oleg Nikishin/Getty Images

Tveir rússneskir ríkisborgarar og einn Úkraínumaður voru handteknir í vopnaverksmiðju í Gramsh í Albaníu í kvöld eftir að hafa reynt að brjótast þangað inn.

Albanska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í kvöld að tveir öryggisverðir verksmiðjunnar hafi særst í átökum við Rússana tvo og Úkraínumanninn. Þeir eru ekki sagðir í lífshættu.

Í frétt Reuters um málið segir að vopnaverksmiðjan hafi að sögn yfirvalda í Albaníu verið notuð af varnarmálaráðuneytinu undanfarið en að á tímum Sovíetríkjanna hafi AK-47 rifflarnir alræmdu verið framleiddir þar í stórum stíl. 

Petrit Selimi, fyrrverandi utanríkisráðherra Kósóvó, hafði á Twitter eftir staðarmiðlum að um hafi verið að ræða tvo karlmenn og eina konu og að þau hafi beitt einhvers konar efnavopni gegn öryggisvörðunum. Þetta hefur ekki verið staðfest af stærri miðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×