Íslenski boltinn

Nökkvi Þeyr tók markamet Akureyrar af Hemma Gunn í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar hér einu af þremur mörkum sínum í Garðabænum í gær.
Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar hér einu af þremur mörkum sínum í Garðabænum í gær. Vísir/Hulda Margrét

KA-maðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson varð í gær sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk á einu tímabili í efstu deild fyrir Akureyrarfélag.

Nökkvi Þeyr skoraði þrennu í 4-2 sigri KA á Stjörnunni í Garðabæ og er þar með kominn með sextán mörk í Bestu deild karla í sumar.

Gamla Akureyrarmetið átti Hermann Gunnarsson en hann skoraði 14 mörk fyrir ÍBA sumarið 1970. Hermann hafði þá komið heim út atvinnumennsku frá Austurríki og tekið við sem spilandi þjálfari Akureyrarliðsins aðeins 23 ára gamall.

Hermann skoraði fjórtán mörk í fjórtán leikjum en hann skoraði þrjár þrennur þetta sumar þar á meðal eina fernu á móti Víkingum.

Þetta markamet stóð í 52 ár eða þar til að Nökkvi jafnaði það og sló það í Garðabænum í gærkvöldi.

Nökkvi Þeyr hafði áður slegið félagsmet liðsfélaga síns Elfars Árna Aðalsteinssonar sem var sá eini hjá KA sem hafði náð að skora þrettán mörk á einni leiktíð í efstu deild. Það gerði Elfar Árni sumarið 2019.

Elfar Árni hjálpaði Nökkva mikið í gær en hann fiskaði báðar vítaspyrnurnar sem Nökkvi skoraði úr.

Bjarni Sveinbjörnsson, faðir landsliðsfyrirliðans Birkis Bjarnasonar, á markmet Þórs í efstu deild en hann skoraði tvisvar ellefu mörk fyrir félagið, fyrst 1992 og svo aftur 1994.

  • Flest mörk á einu tímabili fyrir Akureyrarlið:
  • 16 mörk - Nökkvi Þeyr Þórisson, KA 2022
  • 14 mörk - Hermann Gunnarsson, ÍBA 1970
  • 13 mörk - Elfar Árni Aðalsteinsson, KA 2019
  • 11 mörk - Bjarni Sveinbjörnsson Þór Ak., 1992
  • 11 mörk - Bjarni Sveinbjörnsson Þór Ak., 1994
  • 11 mörk - Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×