Íslenski boltinn

Skoraði áður en hann fékk bílprófið en náði ekki að vera undan pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Andri Haraldsson sést hér skora og fagna markinu sínu í gær.
Haukur Andri Haraldsson sést hér skora og fagna markinu sínu í gær. Samsett/S2 Sport

Þeir eru ekki margir sem skora sitt fyrsta mark í efstu deild áður en þeir fá bílprófið en Skagamaðurinn Haukur Andri Haraldsson komst í þann hóp í gær. Hann náði þó ekki að slá fjölskyldumetið.

Haukur Andri er í raun einn fárra Skagamanna sem hafa opnað markareikninginn fyrir sautján ára afmælið. Haukur Andri skoraði í gær gríðarlega mikilvægt sigurmark fyrir ÍA á móti ÍBV á Norðurálsvellinum á Akranesi.

Haukur Andri var í gær sextán ára, ellefu mánaða og 28 daga gamall en hann heldur upp á sautján ára afmælið sitt á fimmtudaginn kemur.

Haraldur faðir hans var aðeins yngri þegar hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild sumarið 1987. Haraldur skoraði markið á móti Val á Hlíðarenda í júní en hann var þá aðeins sextán ára, tíu mánaða og tuttugu daga.

Haukur var þó á undan móður sinni því Jónína Halla Víglundsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild sumarið 1987 þar sem hún varð átján ára í janúar.

Elsti bróðir hans, Tryggvi Hrafn Haraldsson, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hann var nítján ára, tíu mánaða og 29 daga og Hákon Arnar Haraldsson lék ekki í efstu deild áður en hann fór út í atvinnumennsku í Danmörku.

Yngsti markaskorari Skagamanna í efstu deild frá upphafi er Arnar Bergmann Gunnlaugsson sem var aðeins sextán ára, þriggja mánaða og nítján daga þegar hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í 3-1 sigri í Keflavík í júní 1989.

Þetta var fyrsti leikur Arnars í efstu deild en hann var einnig með fiskað víti og stoðsendingu í leiknum.

Tvíburabróðir hans, Bjarki, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í september sama ár og er sá annar yngsti til að skora fyrir ÍA í efstu deild eða sextán ára, sex mánaða og þriggja daga.

Báðir komust þeir þá fram úr Sigurði Jónssyni sem var sextán ára, níu mánaða og átján daga þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Skagamenn í efstu deild sumarið 1983.

Sigurður var þá að bæta met Eyleifs Hafsteinssonar sem skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild sumarið 1964 þegar hann vantaði aðeins þrjá daga í sautján ára afmælið en hann var þá yngsti markaskorari í efstu deild.

Björn Bergmann Sigurðssonar náði einnig að skora sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir sautján ára afmælið en það gerði hann í september 2007 þegar hann var sextán ára, sex mánaða og 22 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×