Fótbolti

Hvaða stórlið lenda saman í dag í Meistaradeild Evrópu?

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson spilar með FCK í Meistaradeild Evrópu í haust.
Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson spilar með FCK í Meistaradeild Evrópu í haust. Getty/Lars Ronbog

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta hefst innan tveggja vikna og klukkan 16 í dag verður dregið um það hvaða lið lenda saman í riðli. Ljóst er að Íslendinganna í FC Kaupmannahöfn bíður erfitt verkefni.

Eftir leiki gærkvöldsins í umspili er nú endanlega ljóst hvernig styrkleikaflokkarnir líta út fyrir dráttinn í dag.

Dregið verður í átta riðla og geta lið úr sama styrkleikaflokki ekki dregist saman, né heldur lið frá sama landi. Þannig getur til að mynda Liverpoo, sem er í 2. styrkleikaflokki, hvorki dregist í riðil með Manchester City úr efsta flokki né gegn Chelsea eða Liverpool úr 2. flokki.

Í efsta styrkleikaflokki eru liðin sem unnu Meistaradeildina og Evrópudeildina á síðustu leiktíð, og svo sex landsmeistarar úr sterkustu deildum Evrópu. Liðunum er svo raðað í flokka þar á eftir út frá stöðu á styrkleikalista UEFA. Svona líta styrkleikaflokkarnir út:

Styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu 2022-23.Twitter/@433

FCK, með þá Ísak Bergmann Jóhannesson, Hákon Arnar Haraldsson og Orra Stein Óskarsson í sínum röðum, er í neðsta flokki og mun því aðeins dragast gegn liðum úr sterkari flokkum. FCK komst í riðlakeppnina með því að slá út Trabzonspor í gærkvöld.

Eitt annað Íslendingalið er í keppninni því Ajax er í efsta flokki og er ekki útilokað að hinn 18 ára gamli Kristian Nökkvi Hlynsson fái jafnvel að koma við sögu í Meistaradeildinni í vetur.

Dregið verður í riðla í Istanbúl í dag og hefst bein útsending frá drættinum klukkan 16 á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×