Innherji

Tímaspursmál hvenær erlendir sjóðir koma inn á skuldabréfamarkaðinn

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir hvatann fyrir erlenda sjóði að koma inn íslenska skuldabréfamarkaðinn hafa minnkað hækkandi vaxta á bandarískum ríkisbréfum.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir hvatann fyrir erlenda sjóði að koma inn íslenska skuldabréfamarkaðinn hafa minnkað hækkandi vaxta á bandarískum ríkisbréfum. Vísir/Vilhelm

Hverfandi hlutdeild erlendra fjárfestingarsjóða á íslenskum skuldabréfamarkaði, sem hefur sjaldan eða aldrei verið minni í sögunni, er „óheppileg“ að mati seðlabankastjóra. Langtímavaxtamunur Íslands við Bandaríkin hefur lítið hækkað þrátt fyrir að ávöxtunarkrafa lengri ríkisbréfa hafi rokið upp síðustu misseri og sé í dag nálægt sex prósentum.

„Ég held að á einhverjum tímapunkti muni erlendir fjárfestar hefja innreið sína inn á skuldabréfamarkaðinn hér á landi,“ sagði Ásgeir Jónsson í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund bankans í gærmorgun þegar vextirnir voru hækkaðir úr 4,75 prósentum í 5,5 prósent.

Seðlabankastjóri bendir á að núna séu „nánast engir“ erlendir sjóðir á meðal eigenda að íslenskum ríkisbréfum en þeir sem voru áður umsvifamiklir, eins og meðal annars evrópska sjóðastýringarfélagið BlueBay, seldu bréf sín að stærstum hluta á meðan faraldrinum stóð á síðari hluta ársins 2020.

Í lok júlí nam eign erlendra fjárfesta í ríkisbréfum um 56 milljörðum, eða sem jafngildir um 5,5 prósentum af öllum útgefnum slíkum bréfum ríkissjóðs í krónum. Þar munar mestu um kaup sjóðsins Bluebay, sem kom aftur inn á íslenska skuldabréfamarkaðinn, á nýjum 20 ára löngum óverðtryggðum skuldabréfaflokki ríkisins í apríl síðastliðnum fyrir um 20 milljarða. Kaupin knúðu Seðlabanka Íslands, eins og Innherji hefur áður sagt frá, til þess að stíga inn á gjaldeyrismarkaðinn og kaupa gjaldeyri fyrir álíka upphæð.

Aðspurður segir Ásgeir að fyrir utan þá staðreynd að vextirnir hér á landi séu hærri en í okkar helstu viðskiptalöndum þá séu allir erlendir sjóðir sem sýna því áhuga að fjárfesta á íslenskum skuldabréfamarkaði fyrst og fremst að „veðja á sterka undirliggjandi efnahagsstöðu“ landsins. Þar skiptir einkum máli hagvöxtur, verðbólguhorfur, gengi krónunnar og staða ríkisfjármála.

„Það sem hefur hins vegar gerst að undanförnu er að erlendis, eins og í Bandaríkjunum, eru langtímavextir að hækka sömuleiðis mikið og eru því ekki á mjög ósvipuðum stað og hjá okkur. Þannig að hvatinn fyrir þá til að beina fjárfestingum sínum í íslensk ríkisskuldabréf, fremur en bandarísk, er því minni en hann var kannski á árum áður,“ útskýrir seðlabankastjóri.

Þrátt fyrir að vaxtamunur Íslands við sum viðskiptalönd hafi hækkað nokkuð síðustu misseri þá er hann hins vegar enn umtalsvert lægri gagnvart Bandaríkjunum heldur en hann var á árunum 2015 og 2016 þegar erlendir sjóðir fjárfestu í íslenskum ríkisbréfum í talsverðu mæli.

Ávöxtunarkrafan á lengri óverðtryggð íslensk ríkisbréf (RB31) er nú yfir 5,8 prósent og hefur hækkað um liðlega 170 punkta frá áramótum samhliða ört hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum. Til samanburðar er krafan á tíu ára bandarísk ríkisbréf í dag um 3,1 prósent og hefur hún hefur meira en tvöfaldast á síðustu tólf mánuðum.

Þá sagði Ásgeir, eins og fram kom í viðtali við hann á Innherja í gær, að hann teldi „alveg líklegt“ að gengi krónunnar myndi heldur styrkjast á komandi misserum. „Það er nokkuð gott gjaldeyrisflæði til landsins og þessar vaxtahækkanir sem bankinn hefur ráðist í eru til þess fallnar að styrkja gengið fremur en hitt.

Sjá Ísland verða land með AAA-lánshæfiseinkunn

Í fréttabréfi sem sjóðstjóri Bluebay sendi á viðskiptavini félagsins í byrjun maí á þessu ári, skömmu eftir kaup sjóðsins 20 ára löngum íslenskum ríkisbréfum, kom meðal annars fram að það teldi að Ísland gæti orðið þekkt sem „Sviss norðursins“ þegar litið væri til sparnaðarstigs og fjölda annarra mælikvarða. „Horft fram á veginn sjáum við Ísland sem AAA land,“ skrifaði Mark Dowding, yfirfjárfestingarstjóri Bluebay í bréfinu.

Þá benti hann á að ferðaþjónustan væri að koma sterk til baka og Íslandi búi einnig yfir hræódýrri orku gegnum endurnýjanlega orkugjafa, sem gagnast iðnaði og laðar að fjárfestingu.

„Það þýðir einnig að Ísland er einangraðra fyrir hreyfingum á orkuverðum á heimsvísu og þótt landið flytji inn olíu hefur verð á útflutningsvörum, svo sem fiski og áli, í það minnsta hækkað jafn hratt sem ver landið fyrir viðskiptakjarahöggi (e. terms-of-trade shock),“ sagði fréttabréfinu, sem Innherji hefur áður fjallað um.

Spá Bluebay á þeim tíma um verðbólgan kynni að vera ofmetin, hún mældist þá 7,2 prósent, hefur ekki gengið eftir en í dag er hún 9,9 prósent og miðað við nýjustu spá Seðlabankans gæti hún nálgast 11 prósent í lok ársins. Jafnvel þótt húsnæðisliðurinn sé undanskilin þá er hún 7,5 prósent og sé litið til svonefndrar undirliggjandi verðbólgu þá mælist hún 6,5 prósent.

Fjárfestingarstjóri Bluebay taldi sig einnig sjá fram á bata í ríkisfjármálum og það yrði viðskiptaafgangur síðar á þessu ári. „Þar af leiðandi sjáum við virði í löngum skuldabréfum með yfir 5 prósenta ávöxtun og gjaldmiðillinn er sömuleiðis lokkandi,“ sagði Dowding.

Í Peningamálum Seðlabankans, sem birtust í gærmorgun, hefur spá bankans um viðskiptajöfnuð versnað verulega frá því í vor og er nú gert ráð fyrir um 3,7 prósenta viðskiptahalla við útlönd í ár. Þá verði sömuleiðis yfir 3 prósenta viðskiptahalli á árunum 2023 og 2024. Þrátt fyrir þá spá Seðlabankans þá telur hann að gengi krónunnar muni haldast tiltölulega stöðugt á spátímabilinu.


Tengdar fréttir

BlueBay rennir hýru auga til íslenskra ríkisbréfa

Ísland er að verða áhugaverður kostur fyrir skuldabréfafjárfesta á ný en það er mat sjóðstjóra BlueBay Asset Management, eins stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu. Fyrirtækið var um tíma stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisbréfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×