Tveir menn, Damien Sanderson og Myles Sanderson, eru grunaðir um að vera ábyrgir fyrir árásunum og eru eftirlýstir af lögreglunni í Kanada.

Fórnalömb árásanna hafa fundist á þrettán mismunandi stöðum í kanadíska héraðinu Saskatchewan.
Reuters hefur eftir lögreglunni í héraðinu að svo virðist sem mennirnir tveir hafi valið hluta fórnarlambanna en ráðist á hluta þeirra af handahófi.
Fólk beðið um að halda sig innandyra
Lögreglan í Saskatchewan hefur lýst yfir neyðarástandi vegna þess að mennirnir ganga enn lausir og biðlar til fólks að fara varlega. Fólk er beðið um að halda sig innandyra eftir fremsta megni og hleypa ókunnugum ekki inn á heimili sitt.
Neyðarástandið gildir í héraðinu öllu enda er talið að mennirnir séu á bíl og komist hratt yfir.
Byrjuðu eldsnemma
Rhonda Blackmore, lögreglustjórinn í Saskatchewan, sagði á blaðamannafundi í kvöld að tilkynnt hafi verið um fyrstu stunguárásina klukkan 05:40 í morgun að staðartíma. Þá var klukkan 11:40 hér á landi.
Fljótlega hafi fjöldi tilkynninga borist viðbragðsaðilum í héraðinu.
Þá sagði hún að óttast væri að fórnarlömb mannanna séu fleiri og þau hafi farið sjálf á spítala og séu því ekki inni í tölunni.
Trudeau segir árásirnar hryllilegar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kandada, segir á Twitter að árásirnar séu hryllilegar og hryggilegar. Hann segir hug sinn vera hjá aðstandendum þeirra sem létust og hinum særðu.
Þá hvetur hann fólk til að fara að fyrirmælum yfirvalda og þakkar viðbragðsaðilum fyrir störf þeirra í dag.
The attacks in Saskatchewan today are horrific and heartbreaking. I m thinking of those who have lost a loved one and of those who were injured.
— Justin Trudeau (@JustinTrudeau) September 4, 2022
Fréttin hefur verið uppfærð.