Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST en stofnunin hefur verið gagnrýnd undanfarna daga fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við tilkynningum og athugasemdum Borgfirðinga vegna hrossa á bæ í firðinum sem voru vannærð og illa haldin. MAST greip til aðgerða í síðustu viku vegna hrossanna en tilkynningar höfðu borist stofnuninni oft og ítrekað vegna dýranna.

MAST segir í tilkynningunni að þegar stofnunin kanni ábendingar um illa meðferð dýra sé metið til hvaða aðgerða eigi að grípa, eigi þær við rök að styðjast. Fyrst og fremst sé horft til velferðar dýranna og stofnunini beri að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga sem kveði á um málsmeðferðar- og efnisreglur sem ætlað er að tryggja réttaröryggi borgara þegar stjórnsýsluákvarðanir séu teknar.
„Þar sem ákvarðanir Matvælastofnunar í dýravelferðarmálum geta verið mjög íþyngjandi er mikilvægt að rétt sé staðið að ákvörðunum, bæði hvað varðar rannsókn, veita umráðamönnum þátttökurétt í undirbúningi ákvarðana sem og að gæta jafnræði aðila og að meðalhófs sé gætt,“ segir í tilkynningunni.
„Ef tilefni er til er umráðamönnum dýra gefin kostur á að bæta úr frávikum. Það er einungis í tilvikum þar sem úrbætur þola ekki bið sem stofnunin getur tekið dýr úr vörslum umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða.“
Oftast sé ekki þörf á þvingunaraðgerðum enda bregðist umráðamenn oftast við og bæti úr. Vegna ítrekaðra eða alvarlegra frávika sem ekki er sinnt eða ef grunur er um refisvert brot þá sé tekin ákvörðun um aðgerð. Það geti verið sektir, stöðvun starfsemi, úrbætur á kostnað umráðamanns dýra eða með því að taka dýr úr vörslu eigenda.
„Áður en íþyngjandi ákvarðanir eru teknar hafa mál í flestum tilvika verið til meðferðar hjá stofnuninni um nokkurt skeið þar sem umráðamenn hafa þá tækifæri til að bæta úr frávikum. Þegar grípa þarf til íþyngjandi ákvarðana er umráðamönnum veittur andmælaréttur á fyrirhugaðri ákvörðun,“ segir í tilkynningunni.
Lengd andmælaréttarins ráðist af alvarleika málsins en sé að öllu jöfnu fimm dagar. Að þeim tíma liðnum séu andmæli metin og tekin ákvörðun um framhald málsins meðal annars með hliðsjón af efnisreglum laga um velferð dýra og ákvæðum stjórnsýslulaga.
„Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt frumkvæðisskoðun á verklagi Matvælastofnunar í dýravelferðarmálum. Matvælastofnun fagnar þeirri úttekt þar sem hún mun enn frekar styðja Matvælastofnun í að tryggja gagnsæ vinnubrögð og góða stjórnsýslu.“