Fótbolti

Bröndby-bullur réðust á stuðningsmenn FCK í Þýskalandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ákveðnir stuðningsmenn Bröndby fóru sérferð til Dortmund til þess eins að berja á FCK-mönnum.
Ákveðnir stuðningsmenn Bröndby fóru sérferð til Dortmund til þess eins að berja á FCK-mönnum. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

FC Kaupmannahöfn hefur í kvöld keppni í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan 2016. Það fer hins vegar ekki vel af stað.

FCK hefur keppni í riðlakeppninni er það mætir Dortmund í Þýskalandi klukkan 16:45 í dag. Danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá því að hópur stuðningsmanna Bröndby hafi gert sér sérferð til Þýskalands og fengið bullur frá Dortmund með sér í lið til að veita stuðningsmönnum FCK heldur ógæfulegar móttökur í gærkvöld.

Þetta staðfesti Gunnar Wortman, talsmaður lögreglunnar á svæðinu í samtali við DR.

Við erum að rannsaka atvikið. Sem stendur hefur enginn verið handtekinn vegna þess að árásarmennirnir flúðu í margar mismunandi áttir. Myndskeið af atvikinu hafa gengið á milli á internetinu, og það mun hjálpa okkar rannsókn, segir Wortman.

Myndskeiðin sem um ræða hafa verið birt á samfélagsmiðlinum Twitter en þar má sjá hóp fjögurra eða fimm manna að sparka og stappa á liggjandi manni.

Lögreglan í Dortmund hefur átt samstarf við danska lögreglu en lögreglumenn frá Kaupmannahöfn eru mættir á staðinn og munu aðstoða heimamenn í kringum leikinn á eftir.

Búast má við að þeir Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson verði báðir í eldlínunni með Kaupmannahafnarliðinu síðar í dag.

Sevilla og Manchester City eru í G-riðli keppninnar ásamt Dortmund og FCK en þau lið mætast í Andalúsíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×