Í gær fjallaði Vísir um kynningartexta sem danska sælgætisfyrirtækið Lakrids by Bülow hefur stuðst við, þar sem sagði að Johan Bülow, stofnandi fyrirtækisins, hefði árið 2009 fengið þá snjöllu hugmynd að blanda saman lakkrís og súkkulaði. Honum hafi verið sagt að það væri, einfaldlega, ekki hægt. Hann hafi hins vegar sýnt efasemdarmönnum í tvo heimana og gert nákvæmlega það.
Bent hefur verið á að saga súkkulaðihúðaðs lakkríss sé ögn lengri en 13 ár. Það gerði framkvæmdastjóri Freyju, Pétur Thor Gunnarsson, meðal annars, og benti á að sambland lakkríss og súkkulaðis mætti kalla áratugagamla hefð hér á landi. Danir væru þarna að reyna að eigna sér heiðurinn af þeirri hefð.
Í morgun birtist síðan tíst frá aðgangi danska sælgætisframleiðandans, þar sem gengist var við því að um væri að ræða íslenska nammihefð, og unnið væri að breytingum á kynningartextanum.
Súkkulaði og lakkrís jafn íslenskt og jöklar og álfar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hefur nú blandað sér í málið. Í svari við tísti Lakrids by Bülow segir hann súkkulaðihúðaðan lakkrís vera jafn íslenskan og „jöklar og álfar, eldfjöll og fossar.“
„Ekkert danskt við það, með fullri virðingu. Prófið frekar að setja súkkulaði á ykkar ástkæra smurbrauð eða svínasteik, kæru dönsku vinir. Það gæti verið eitthvað,“ skrifar forsetinn á sínum opinbera reikningi.
Chocolate-coated liquorice is as Icelandic as glaciers and elves, volcanoes and waterfalls. Nothing Danish there, with all due respect. Try instead putting chocolate on your beloved smørrebrød or stegt flæsk, dear friends in Denmark. That could be something.
— President of Iceland (@PresidentISL) September 6, 2022
Ljóst er að forsetinn gat ekki látið það átölulaust að fólk velktist í vafa um uppruna súkkulaðihúðaðs lakkríss, miðað við þessi orð.
Raunar herma heimildir fréttastofu að Guðni sé mikill aðdándi íslensks lakkríss, og hafi meðal annars boðið upp á hann í samkvæmum tengdum útgáfu á bókum hans. Því standi málið honum nær en ella.