Fótbolti

„Okkur skorti hungur og á­kafa“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thomas Tuchel er ekki að eiga sjö dagana sæla.
Thomas Tuchel er ekki að eiga sjö dagana sæla. EPA-EFE/ANDREW YATES

Meistaradeild Evrópu hófst á nýjan leik á þriðjudag. Það var mikið um dýrðir og nokkuð um óvænt úrslit. Þau óvæntustu komu í Króatíu þar sem Dinamo Zagreb skellti Chelsea, lokatölur 1-0.

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, var gríðarlega ósáttur í leikslok, bæði með sjálfan sig sem og leikmenn sína. Þetta var þriðja tap Chelsea í síðustu fimm leikjum en það sem meira er, þetta var aðeins fimmti sigur Zagreb í 43 leikjum í deild þeirra bestu.

„Ég sá þetta ekki fyrir, ég var augljóslega í röngum bíósal. Ég taldi að síðasti leikur hefði hjálpað okkur. Ég hélt að liðið væri nægilega vel undirbúið, ég hélt að við vissum um hvað þetta snerist.“

„Ég veit í raun ekki hvaðan þessi frammistaða í dag kom. Okkur skorti vilja, skorti hungur og skorti ákafa til að gera hlutina sem við þurfum að gera á hæsta getustigi. Við erum greinilega ekki á þeim stað sem við viljum vera á.“

„Ég er reiður út í frammistöðu okkar. Við vorum ekki nægilega nákvæmir, ekki nægilega skilvirkir, ekki nægilega sóknarþenkjandi með boltann. Þetta var ekki nægilega gott sem lið né sem einstaklingar,“ sagði Tuchel einfaldlega brjálaður í leikslok.

Í hinum leik E-riðils gerðu Ítalíumeistarar AC Milan 1-1 jafntefli við Austurríkismeistara Salzburg og riðillinn því galopinn enn. Sem stendur er Chelsea þó á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×