Sport

Meistararnir flengdir í fyrsta leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Josh Allen var óstöðvandi í gær.
Josh Allen var óstöðvandi í gær. vísir/getty

Tímabilið í NFL-deildinni hófst í nótt þegar meistarar LA Rams tók á móti Buffalo Bills. Margir spá því að þessi lið munu einnig mætast í Super Bowl í febrúar.

Buffalo var nálægt því að fara alla leið á síðustu leiktíð og liðið ætlar ekki að láta neitt stoppa sig í vetur. Liðið sendi líka yfirlýsingu með því að flengja meistarana á þeirra heimavelli, 31-10.

Leikstjórnandi Bills, Josh Allen, setti tóninn fyrir það sem koma skal en hann var óstöðvandi. Kláraði 26 af 31 sendingum sínum fyrir 297 jördum og 3 snertimörkum. Hann kastaði boltanum líka tvisvar frá sér. Svo hljóp hann 56 jarda með boltann og skoraði eitt snertimark á hlaupum.

Varnarmaðurinn Von Miller yfirgaf Rams í sumar og fór yfir til Bills. Margir töluðu um að það væri púslið sem vantaði til að Bills gæti farið alla leið. Ef mið er tekið af leiknum í nótt er það rétt. Miller með tvær leikstjórnandafellur og heilt yfir frábær í leiknum.

Matthew Stafford, leikstjórnandi Rams, hefur verið að glíma við mjög erfið olnbogameiðsli og það leyndi sér ekki í neitt að hann er ekki eins og hann á að sér að vera. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Rams.

Stafford kláraði 29 af 41 sendingum sínum fyrir 240 jördum. Hann kastaði fyrir einu snertimarki en þrisvar sinnum kastaði hann boltanum í hendur andstæðinga sinna.

Sem fyrr gekk honum best að finna útherjann Cooper Kupp sem greip 13 sendingar frá honum og endaði Kupp með 128 jarda og eitt snertimark.

Fyrsta umferðin heldur áfram á sunnudag og þá verða tveir leikir í beinni á Stöð 2 Sport 2 klukkan 17.00 og 20.20.

Fyrri leikurinn er rimma Miami Dolphins og New England Patriots en seinni leikurinn er á milli Arizona Cardinals og Kansas City Chiefs.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×