Fótbolti

Skilnaður Totti fer líklega fyrir dómstóla: „Hún sveik mig fyrst“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Totti með eiginkonu sinni, Ilary Blasi. Þau eiga eftir að ganga formlega frá skilnaði.
Totti með eiginkonu sinni, Ilary Blasi. Þau eiga eftir að ganga formlega frá skilnaði. Vísir/Getty

Francesco Totti, goðsögn hjá Roma á Ítalíu, hefur opnað sig um erfiða tíma undanfarin misseri. Hann kveðst hafa glímt við þunglyndi þar sem hann stendur í skilnaði og missti föður sinn í kórónuveirufaraldrinum.

Totti hætti knattspyrnuiðkun 41 árs gamall árið 2017 eftir farsælan feril. Hann lék alla tíð með Roma og spilaði einnig 58 landsleiki fyrir Ítalíu frá 1998 til 2006 en hann hætti með landsliðinu eftir heimsmeistaratitil Ítala sumarið 2006.

Hann hefur hins vegar átt í vandræðum í einkalífinu síðustu misseri og opnaði sig um það í viðtali um helgina. Mikið hefur verið látið með meint framhjáhald bæði hans og eiginkonu hans, módelsins Ilary Blasi, en hjónin tilkynntu í lok júlí að þau væru fráskilin.

„Það er ekki satt að ég hafi verið fyrri til að svíkja. Ég sagðist ekki ætla að ræða þetta sem ég gerði ekki um tíma, en ég hef lesið of miklar lygar undanfarnar vikur. Margar þeirra eru farnar að hafa áhrif á börnin mín,“ segir Totti í viðtali við Corriere della Sera.

Hann kveðst hafa verið í krísu frá því snemma á síðasta ári.

„Hin sanna krísa brast fram í mars og apríl í fyrra. Mér hafði liðið illa um hríð og fór í gegnum erfiða tíma. Fyrst var það vegna þess að ég hætti að spila og svo lést faðir minn úr Covid. Ég fékk einnig Covid og var fárveikur í 15 daga. En þegar ég þurfti mest á eiginkonu minni að halda, var hún ekki til staðar,“

„En þegar samband slitnar er ábyrgðin jöfn, 50 og 50. Ég hefði átt að vera meira með henni,“ segir Totti.

Kíkti í símann hennar til að staðfesta grun sinn

Hann segir sögusagnir um mögulegt framhjáhald konu sinnar hafa borist honum síðasta haust.

„Í september á síðasta ári fór ég að heyra orðróma: Ilary er að hitta einhvern annan, jafnvel fleiri en einn,“ segir Totti sem kveðst hafa kíkt á síma hennar til að staðfesta orðrómana.

„Ég hef aldrei gert slíkt á þeim 20 árum sem við höfum verið saman, og ekki hún heldur við mig. En þegar mér bárust viðvaranir frá mörgu mismunandi fólki, sem ég treysti, fór mig að gruna ýmislegt. Ég leit á farsímann hennar og staðfesti grun minn.“

Óttast framhaldið

„Það hafa margir orðrómar flogið í gegnum tíðina um hana og mig, en það voru bara orðrómar. Þarna voru komin sönnunargögn, staðreyndir. Það leiddi til þunglyndis hjá mér. Ég gat ekki lengur látið sem ekkert væri í gangi,“ segir Totti.

Totti er nú að slá sér upp með Noemí Bocchi. Totti segir Noemí hafa hjálpað sér upp úr þeirri holu sem hann var kominn í, og að þau hafi byrjað að hittast eftir að upp um framhjáhaldið komst.

Líkt og fram kemur að ofan hættu þau Totti og Blasi saman í sumar en eftir á að ganga frá skilnaði þeirra formlega. Hann býst við að það endi í réttarsal.

„Ég óttast að mál okkar Ilary endi fyrir dómi. Ég vonast enn eftir að við getum komist að samkomulagi,“ segir Totti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×