Handbolti

Olís-spá kvenna 2022-23: Með fullhlaðnar byssur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir ungan aldur er Harpa Valey Gylfadóttir í lykilhlutverki hjá ÍBV.
Þrátt fyrir ungan aldur er Harpa Valey Gylfadóttir í lykilhlutverki hjá ÍBV. vísir/hulda margrét

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir ÍBV 2. sæti Olís-deildar kvenna í vetur.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir fyrir um gengi liðanna í Olís-deild kvenna en keppni í deildinni hefst í dag, fimmtudaginn 15. september.

Íþróttadeild spáir ÍBV 2. sæti Olís-deildar kvenna í vetur og að Eyjakonur fari upp um tvö sæti frá síðasta tímabili.

Eyjakonur urðu fyrir miklu áfalli fyrir síðasta tímabil þegar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Birna Berg Haraldsdóttir meiddust alvarlega. Sú fyrrnefnda sneri aftur eftir áramót en var mjög misjöfn en sú síðarnefnda spilaði ekkert.

Hrafnhildur Hanna og Birna Berg eru núna báðar komnar aftur auk þess sem ÍBV hefur endurheimt Ástu Björt Júlíusdóttir. Eyjakonur mæta því til leiks með fullhlaðnar byssur.

ÍBV er með einn besta markvörð deildarinnar undanfarin ár, Mörtu Wawrzynkowska, öfluga vörn með Sunnu Jónsdóttur í broddi fylkingar og sóknin ætti að eflast til muna frá síðasta tímabili. Þess fyrir utan er leikmannahópurinn nokkuð breiður og hlutfallið milli ungra og efnilegra og eldri og reyndari leikmanna gott.

Eyjakonur enduðu í 4. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili og komust í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn. Nú hlýtur stefnan vera sett á að taka fara allavega upp um eina tröppu. Það eru allavega forsendur fyrir því.

Gengi ÍBV undanfarinn áratug

  • 2021-22: 4. sæti+undanúrslit
  • 2020-21: 4. sæti+undanúrslit
  • 2019-20: 7. sæti
  • 2018-19: 3. sæti+undanúrslit
  • 2017-18: 3. sæti+undanúrslit
  • 2016-17: 5. sæti
  • 2015-16: 6. sæti+átta liða úrslit
  • 2014-15: 4. sæti+undanúrslit
  • 2013-14: 3. sæti+undanúrslit
  • 2012-13: 3. sæti+undanúrslit

Lykilmaðurinn

Sunna Jónsdóttir er reyndasti leikmaður ÍBV.vísir/hulda margrét

Sunna Jónsdóttir er óskoraður leiktogi ÍBV-liðsins og mikilvægasti leikmaður þess. Hún er einn besti varnarmaður Olís-deildarinnar og með endurkomu Birnu og Hrafnhildar Hönnu ætti ekki að mæða jafn mikið á henni í sókninni. Sunna hefur verið í Eyjum í nokkur ár og þyrstir eflaust í að vinna titil með Bandalaginu.

Félagaskiptamarkaðurinn

Komnar:

  • Ásta Björt Júlíusdóttir frá Haukum
  • Dröfn Haraldsdóttir byrjuð aftur

Farnar:

  • Lina Cardell til Kärra (Svíþjóð)

Markaðseinkunn (A-C): B

Fylgist með

Brotthvarf Linu Cardell ætti að opna leið fyrir Söru Dröfn Richardsdóttur inn í byrjunarlið ÍBV. Hún fær tækifæri í hægra horninu í vetur og gæti neglt þá stöðu niður til frambúðar. Sara var í íslenska U-18 ára liðinu sem endaði í 8. sæti á HM í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×