Körfubolti

Evrópumeistararnir úr leik

Atli Arason skrifar
Pólverjinn Vlatko Cancar gerði þrefalda tvennu gegn Evrópumeisturnunum.
Pólverjinn Vlatko Cancar gerði þrefalda tvennu gegn Evrópumeisturnunum. Getty Images

Pólverjar gerðu sér lítið fyrir þegar liðið sló Evrópumeistara Slóvena úr leik í 8-liða úrslitum EuroBasket í kvöld, 90-87.

Leikurinn var jafn lengst af en Slóvenar byrjuðu betur áður. Áhlaup Pólverja skilaði þeim þó yfirhöndinni í fyrsta leikhluta sem Pólverjar unnu með þremur stigum, 26-29.

Slóvenar reyndu hvað þeir gátu í öðrum leikhluta en náðu mest að minnka muninn niður í eitt stig í upphafi fjórðungsins áður en Pólverjar tóku aftur yfir og leiddu í hálfleik með 19 stigum, 39-58.

Þriðji leikhluti var hins vegar eign Slóvena. Evrópumeistararnir nýttu sér mistök Pólverja og minnkuðu muninn í tvígang niður í eitt stig en slíkur var munurinn fyrir lokaleikhlutan, 63-64.

Slóvenía náði aftur forskotinu í fjórða leikhluta en um miðbik síðasta leikhluta tókst Pólverjum aftur að ná yfirhöndinni og leiddu alveg til loka leiks. Slóvenar náðu að minnka muninn í þrjú stig og fengu tækifæri til að jafna leikinn í síðasta skoti sínu en þriggja stiga tilraun Klemen Prepelic fór ekki ofan í. Luka Donic, leikmaður Slóveníu, hafði stutt áður lokið leik með fimm villur.

Hjá Slóveníu var Vlatko Cancar stigahæstur með 21 stig en Pólverjinn Mateusz Ponitka var besti leikmaður vallarins í kvöld. Ponitka var með þrefalda tvennu í kvöld en hann gerði 26 stig, tók 16 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. 

Lokatölur voru því 90-87, Pólverjum í vil. Pólland mun mæta Frökkum í undanúrslitum EuroBasket næstkomandi föstudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×