Körfubolti

Heimsmeistararnir tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spánverjar eru Evrópumeistarar í körfubolta eftir sigur gegn Frökkum í kvöld.
Spánverjar eru Evrópumeistarar í körfubolta eftir sigur gegn Frökkum í kvöld. Nikola Krstic/MB Media/Getty Images

Spánverjar eru nú bæði heims- og Evrópumeistarar í körfubolta eftir átta stiga sigur gegn Frökkum í úrslitaleik Evrópumótsins í kvöld, 88-76. Var þetta fjórði Evrópumeistaratitill Spánverja á seinustu þrettán árum.

Frakkar skoruðu fyrsta stig leiksins, en Spánverjar voru mun sterkari aðilinn eftir það í fyrsta leikhluta. Liðið náði mest 11 stiga forskoti þegar lítið var eftir af leikhlutanum og leiddi að honum loknum með níu stiga mun, 23-14.

Spánverjar virtust vera að ganga frá leiknum stgrax í öðrum leikhluta þar sem liðið náði mest 21 stigs forskoti, en Frakkar skoruðu seinustu 11 stig hálfleiksins og staðan var því 47-37 þegar gengið var til búningsherbergja.

Jafnræði var með liðunum eftir hlé og liðin skiptust á að ná áhlaupum. Frakkar minnkuðu muninn niður í þrjú stig snemma í þriðja leikhluta, en Spánverjar náðu 13 stiga forskoti fljótlega eftir það. Þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn níu stig, staðan 66-57 Spánverjum í vil.

Spánverjar hleyptu Frökkum svo aldrei of nálægt sér í fjórða og seinasta leikhlutanum og tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn með átta stiga sigri, 88-76.

Juan Hernangomez var atkvæðamestur í liði Spánverja með 27 stig, fimm fráköst og eina stoðsendingu. Evan Fournier var stigahæstur í lið Frakka með 20 stig, en hann tók einnig tvö fráköst og gaf tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×