Fótbolti

Guðný hélt hreinu gegn Parma

Atli Arason skrifar
Guðný Árnadóttir er leikmaður AC Milan.
Guðný Árnadóttir er leikmaður AC Milan. Getty Images

Guðný Árnadóttir var í byrjunarliði AC Milan og lék allan leikinn í 0-4 útisigri liðsins á Parma í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Alexandra Jóhannesdóttir lék einnig í deildinni með Fiorentina en Sara Björk Gunnarsdóttir gat ekki tekið þátt vegna meiðsla.

Valentina Bergamaschi, Sara Thrige, Kamila Dubcova og Kosovare Asllani skoruðu mörk Milan í 0-4 sigrinum á Parma.

Með sigrinum fer Milan upp fyrir Parma í deildinni en Milan er nú með sex stig í 6. sæti eftir fjóra leiki á meðan Parma er í 7. sæti með þrjú stig.

Á sama tíma áttust við Roma og Fiorentina, þar sem heimakonur í Roma unnu 2-1 sigur. Alexandra Jóhannesdóttir var í byrjunarliði Fiorentina og lék í 81 mínútu.

Michela Catena kom Fiorentina yfir í fyrri hálfleik áður en Sophie Haug og Valentina Giacinti sneru leiknum við fyrir Roma í síðari hálfleik.

Roma fer á topp deildarinnar með sigrinum en Roma er nú með níu stig á toppi deildarinnar eftir fjóra leiki. Alexandra og stöllur í Fiorentina eru með jafn mörg stig en eru í þriðja sæti vegna lakari markatölu.

Fyrr í dag gerði Juventus, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, jafntefli við Sassuolo, 1-1. Sara Björk tók ekki þátt í leiknum en hún á við smávægileg meiðsli að stríða. Juventus er í 4. sæti deildarinnar með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×