Íslenski boltinn

„Rokk og ról á laugardaginn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen getur unnið sinn fyrsta titil á þjálfaraferlinum á morgun.
Eiður Smári Guðjohnsen getur unnið sinn fyrsta titil á þjálfaraferlinum á morgun. vísir/vilhelm

Þrátt fyrir langan feril, bæði sem leikmaður og þjálfari, hefur Eiður Smári Guðjohnsen ekki tekið þátt í bikarúrslitleik hér á landi. En það breytist á morgun þegar hann stýrir FH í úrslitaleik Mjólkurbikars karla gegn Víkingi.

„Ég er fullur tilhlökkunar eins og allir aðrir. Þetta er kærkomið og mikil spenna í mér eins og öllum öðrum. Sem fótboltamaður hef ég upplifað stærri hluti, með fullri virðingu en sem þjálfari er þetta í fyrsta sinn fyrir mig og frábært að geta tekið þátt í svona leik,“ sagði Eiður í samtali við Vísi á blaðamannafundi fyrir bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvelli í gær.

Eiður segir að hléið sem var gert á keppni hérlendis vegna landsleikja hafi verið kærkomið og FH-ingar hafi nýtt það vel.

„Við vorum mestmegnis á æfingavellinum. Við gáfum nokkurra daga frí eftir síðasta deildarleik, bara til að menn næðu að núllstilla sig. Svo spiluðum við innbyrðis leik frekar en að velja okkur andstæðing. Við spiluðum bara ellefu á móti ellefu sem kom bara mjög vel út,“ sagði Eiður.

Klippa: Eiður Smári um bikarúrslitaleikinn

„Þessi vika hefur verið frábær. Við vorum með virkilega góðar æfingar á mánudag og þriðjudag og í gær [miðvikudag] æfðum við hér á Laugardalsvelli, bara til að leikmenn fengju tilfinninguna fyrir öllu og gætu séð þetta fyrir sér. Það var frí í dag [í gær], æfing á morgun og svo rokk og ról á laugardaginn.“

Bikarúrslitaleikur Víkings og FH hefst klukkan 16:00 á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×