Í Laugardal eru þrír grunnskólar: Laugalækjarskóli, fyrir börn í 7. til 10. bekk, Laugarnesskóli, fyrir 1. til 6. bekk, og Langholtsskóli, fyrir 1. til 10. bekk. Borgar- og skólayfirvöld og íbúar hafa sammælst um að skólarnir séu löngu sprungnir, nemendum í hverfinu hafi fjölgað gífurlega, og nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana.
Val skóla- og frístundasviðs borgarinnar til að bregðast við vandanum stóð á milli þriggja sviðsmynda. Í þeirri fyrstu fólst að skólarnir þrír, héldu sér í núverandi mynd og byggt yrði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda í skólahverfinu.
Önnur sviðsmynd fól í sér að færa tvo elstu árganga Laugarnesskóla, það er að segja fimmta og sjötta bekk, yfir í Laugalækjarskóla og að byggt verði við hann og Langholtsskóla.
Sviðsmynd þrjú fólst í að opnaður yrði nýr unglingaskóli í hverfinu fyrir alla unglinga úr skólunum þremur.
Foreldrar í hverfinu voru verulega mótfallnir annarri og þriðju sviðsmyndinni og boðað hafði verið til undirskriftasöfnunar, sem rúmlega þúsund skrifuðu undir, yrði fyrir valinu.
Skóla- og frístundaráð sammála foreldrum
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar mun mæla með fyrstu sviðsmyndinni. Tillaga þess efnis mun fara fyrir borgarráð og borgarstjórn áður en hún kemur til framkvæmda.
„Þetta er mikið fagnaðarefni og við í foreldrafélagi Laugarnesskóla erum gríðarlega ánægð með þessa ákvörðun, við teljum að þetta sé rétt ákvörðun. Skólarnir í dalnum eru mjög farsælir skólar, þetta er rótgróið hverfi og það ríkir almenn ánægja með skólana. Stór hluti íbúa hefur einmitt kallað eftir því þessi ákvörðun yrði tekin. Þannig að við erum mjög ánægð með að það verði byggt á þeirri hefð og þeirri ánægju sem hér hefur ríkt. Við fögnum í dag,“ segir Grétar Már Axelsson, stjórnarmaður í foreldrafélagi Laugarnesskóla, í kvöldfrétt Stöðvar 2 um málið. Hana má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Hann segir ferlið hafa verið langt, árið 2002 hafi sjöundi bekkur þurft að yfirgefa Laugarnesskóla, 2013 hafi orðið ljóst að skólinn væri sprunginn. Sú staða sé enn í dag og í hinum skólunum tveimur í hverfinu.
„Það er full þörf á að bregðast við. Það er fyrirséð að það verði haldið haldið áfram að byggja hratt upp í skólahverfunum og það er full þörf á að ýta þessum áætlunum í framkvæmd sem fyrst,“ segir Grétar Már að lokum.