Meira en áratugur er liðinn frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins byrjaði fyrst að leggja áherslu á að aðeins ein tegund af hleðslutengjum væri fyrir snjalltæki. Samkomulag milli Evrópusambandsins og Evrópuþingsins náðist í sumar og var síðan samþykkt af 602 þingmönnum þingsins í dag. Aðeins 13 greiddu atkvæði á móti.
Flestir símar með Android stýrikerfinu, til að mynda Samsung Galaxy sem er helsti keppinautur iPhone-síma Apple, hafa tengi fyrir USB-C. Apple tæki hafa hins vegar svonefnd Lightning-tengi. Samkvæmt tölum ESB voru 29% snjallsíma sem voru seldir árið 2018 með USB-C-tengi, 21% með Lightning-tengi og helmingurinn með eldra USB-B-tengi.
Eins og fyrr segir eru breytingarnar taldar hafa mestu áhrifin á Apple og hefur fyrirtækið áður sagt að samræming á hleðslutækjum eða hleðslusnúrum yrði Þrándur í götu nýsköpunar. Raftæki á borð við spjaldtölvur og heyrnartól falla hins vegar einnig undir fyrirhugaðar breytingar, og gætu breytingarnar því haft áhrif á marga raftækjaframleiðendur.
Evrópuþingið grípur til aðgerðanna vegna umhverfissjónarmiða og þá er einnig talið að neytendur muni spara um 250 milljónir evra sökum breytinganna. Guardian greinir frá.