Já allt gengur upp:
Börnin fá þann tíma sem þau þurfa, makinn og parsambandið, aðrir vinir og vandamenn, vinnan gengur vel og þú stundar áhugamálin af kappi.
Eða hvað?
Nei, því miður er jafnvægið í klúðri hjá mörgum. Oft þannig að vinnan er svo mikið áhugamál að hún yfirtekur svolítið tíma frá öðru.
Já, hjá mörgum er vinnan hreinlega svo skemmtileg!
Hér eru ellefu vísbendingar um að þetta jafnvægi sé í einhverju klúðri.
Mælt er með því að fólk sem samsvarar sig við sex eða fleiri atriði á listanum, endurskoði vel stöðuna hjá sér.
Því til langstíma litið eru meiri líkur á velgengni í lífi og starfi ef jafnvægið er ágætt þarna á milli.
1. Stress og ónægur svefn
Þú ert oft í stressi og streitu, gerir þér grein fyrir því en heldur áfram því það er svo mikið að gera.
Þú sefur ekki sjö til átta klukkustundir á nóttu eins og mælt er með. Oft finnur þú fyrir syfju eða þreytu en heldur áfram án þess að gera breytingar. Til dæmis að fara fyrr að sofa.
2. Þú vinnur mikið
Það er svo mikið að gera í vinnunni að yfir vikuna ertu meira í vinnunni en heima fyrir. Dagarnir geta verið langir og oft þarf að vinna um helgar líka.
Þegar aðrir klára vinnudaginn sinn síðdegis, átt þú enn eftir eittvað óklárað og ert því aðeins lengur.
3. Vinnan fer með þér heim
Þegar þú kemur heim þarf oft að gera eitthvað vinnutengt. Þó ekki nema að fylgjast með eða svara tölvupóstum. Eitt og eitt símtal gæti líka fylgt.
Stundum er svo mikið að gera að þú sest við tölvuna eftir kvöldmat og ræðst í einhver verkefni.
4. Líkamlegar breytingar
Það er svo mikið að gera að þú hreinlega hefur ekki haft tíma til þess í dágóðan tíma að huga að heilsu og líkama. Til dæmis að fara í ræktina eða tryggja aðra hreyfingu.
Líkaminn hefur breyst að undanförnu: Þú hefur þyngst eða jafnvel grennst á frekar skömmum tíma.
5. Hefur ekki tíma í afslöppun
Þú manst eiginlega ekki hvenær þú lást í leti síðast. Horfðir á góða mynd og hafðir það kósý. Þú hefur ekki haft tíma til að taka deitkvöld með makanum eða hitta vini og vandamenn utan vinnu. Að minnsta kosti ekki eins oft og vilji er til.
6. Stundum spenna heima fyrir
Já það er álag og smá spenna heima fyrir. Makinn styður þig og hvetur til dáða í vinnunni þinni en öllu má ofgera. Fyrir vikið ertu með samviskubit yfir því að vera ekki að sinna fjölskyldunni eins og skyldi.
Litlar stundir eins og að gefa þér smá tíma í spjall við maka eða börn eru hverfandi. Samt getur þú átt nokkuð löng samtöl við vinnufélaga eða viðskiptavini.
7. Það er alltaf mikið að gera
Þótt þú rembist við að klára einhver verkefni fyrir einhvern tíma, virðist ,,rólegi“ dagurinn í vinnunni aldrei renna upp. Því verkefnin bætast bara við og þú ert því hreinlega alltaf á fullu.
Í vinnunni ertu með mjög marga bolta á lofti og líður eins og þeir séu allir jafn áríðandi, þótt nánari skoðun myndi fljótt sýna að einhver þessara verkefna mega bíða eða vera unnin af öðrum.
8. Stundum stuttur þráður
Þótt þér finnist gaman í vinnunni ertu ekkert endilega að upplifa alla daga sem skemmtilega daga. Stundum er meira að segja svolítið stuttur í þér þráðurinn. Sem gæti bitnað á vinnufélögum eða fjölskyldu og vinum. Þú hreinlega hefur ekki tíma í þetta fólk!
9. Umgengni og frágangur
Að hafa aldrei tíma í eitt eða neitt bitnar oft á skipulagi og umgengni. Það sést á borðinu þínu í vinnunni að það er mikið að gera. Og eflaust er umgengnin eða skipulagið heima fyrir ekkert heldur til að hrópa húrra fyrir. Þú hefur hreinlega ekki tíma í að þrífa eða taka til!
10. Meira að segja smá vinna á sunnudögum
Það er svo mikið að gera hjá þér að alla daga vikunnar vinnur þú eitthvað smá. Þér finnst þú ekkert endilega vera að vinna, en heiðarlegt svar er að þú manst ekki hvenær sá dagur var síðast þar sem þú gerðir ekki neitt vinnutengt í heilan dag.
11. Hugsar oft um vinnuna
Þótt þú sért ekki að vinna og jafnvel með vinum og vandamönnum, ferðu oft að hugsa um vinnuna, verkefnin sem þar eru í gangi eða jafnvel að tala um vinnuna eða einhver vinnutengd mál.
Mögulega upplifir þú sjálfan þig sem vinnualka.