Bukayo Saka skoraði eina mark Arsenal í naumum 1-0 útisigri á Bodø/Glimt í Evrópudeildinni í fótbolta. Alfons Sampsted lék allan leikinn í hægri bakverði Noregsmeistaranna. Stemningin í Noregi var gríðarleg fyrir leik og var haldin glæsileg flugeldasýning fyrir leik.
Mark Saka kom um miðbik fyrri hálfleiks þegar hann kom boltanum í netið. Boltinn fór þá af varnarmanni Bodø/Glimt í Saka og þaðan í netið.
Heimamenn voru langt því frá slakari aðilinn í leiknum og gáfu Skyttunum hörkuleik. Þeim tókst þó ekki að jafna metin og því fór sem fór, lokatölur 0-1 á Aspmyra-vellinum í Bodø.
Eftir sigurinn er Arsenal á toppi A-riðils með fullt hús stiga eða níu stig að loknum þremur leikjum. Þar á eftir koma Bodø/Glimt og PSV með fjögur stig en síðarnefnda liðið mætir Zürich síðar í kvöld.