Íslenski boltinn

FH-ingar með húmorinn að vopni inn í helgina: „Breytum Keflavík í Kaplakrika“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson fagna einu af þremur mörkum sínum í síðasta leik á móti Leikni.
Matthías Vilhjálmsson fagna einu af þremur mörkum sínum í síðasta leik á móti Leikni. Vísir/Diego

FH-ingar komust upp úr fallsæti með sigri á Leikni um síðustu helgi en eru þó hvergi nærri sloppnir. Fram undan er útileikur í Keflavík og þegar FH-ingar hafa ferðast út fyrir Hafnarfjörð í sumar þá hefur ekki verið von á góðu.

FH-liðið hefur ekki unnið einn einasta útileik í deildinni í Bestu deildinni í sumar og er eina liðið í deildinni sem hefur ekki náð því.

Tólf leikir og samtals þrjú stig og sex skoruð mörk. Stigin komu í jafnteflum á Akranesi, í Vesturbænum og upp í Efra-Breiðholti. FH hefur aðeins skorað á 180 mínútna fresti í útileikjum sínum og markatalan er fjórtán mörk í mínus.

Þetta er ekki falleg upptalning fyrir FH-inga en þeir eru með lausnina fyrir leikinn í Keflavík á morgun.

Húmorinn er enn á sínum stað þrátt fyrir dramatískt og erfitt vonbrigðartímabil eins og sést í færslu á Instagram síðu FH-inga.

„Látum strákunum líða eins og heima hjá sér. Breytum Keflavík í Kaplakrika á laugardaginn,“ segir í færslunni og með henni er mynd af Keflavíkurvellinum þar sem er búið að bæta inn á mörgum kennileitum úr Hafnarfirði.

Nú er að sjá hvort FH-ingum takist að „plata“ sína menn en það þarf alla vega eitthvað að breytast hjá liðinu utan 220 því næstu tveir leikir eru á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×