Mari varð að sætta sig við annað sætið á Íslandi þar sem Þorleifur Þorleifsson fagnaði sigri. Þorleifur varð í 110. sæti í karlaflokki en þar eru þeir bestu enn að hlaupa.
Mari kláraði alls 36 hringi eins og hin austurríska Angelika Huemer-Toff en Huemer-Toff var með betri tíma og tekur því tólfta sætið. Mari náði að klára 36. hringinn sem þýðir að hún var búin að hlaupa 247,9 kílómetra á þessum eina og hálfa sólarhring.
Það voru því bara ellefu konur í heiminum sem hlupu lengra en Mari. Þær komu frá Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu, Japan, Frakklandi, Ungverjalandi, Hollandi, Belgíu, Nýja-Sjálandi og Ítalíu.
Sigurvegarinn var hin kanadíska Amanda Nelson sem kláraði 55 hringi og hljóp alls í rúma 55 klukkutíma áður en hún missti af 56 hringnum. Nelson er 34 ára gömul og hljóp alls 375.76 kílómetra í hlaupinu en það er eins og að hlaupa frá Reykjavík og næstum alla leið til Jökulsárlóns (munar aðeins þremur kílómetrum).
Nelson hafði nokkra yfirburði en í öðru sæti var Jennifer Russo frá Bandaríkjunum sem kláraði 48 hringi. Þriðja var síðan Margie Hadley frá Ástralíu. Russo hljóp alls 322 kílómetra.