Í hádegisfréttum í gær ræddi verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ um að þær gríðarlegu verðhækkanir sem urðu á heimsmarkaðsverði á hrávöru í kjölfar innrásar Rússa hefðu mikið til gengið til baka. Það sýndi alþjóðleg vísitala hrávörðuverðs og kallaði hún eftir því að lækkunin myndi fljótlega endurspeglast í innlendu vöruverði.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segist þó heyra á sínum félagsmönnum í innflutningi á matvöru að þótt farið sé að hægja á hækkunum séu þeir ekki farnir að sjá mikið um lækkanir hjá sínum birgjum.
Ólafur var spurður hvort það væri ekki eðlilegt að verðlagseftirlit ASÍ sé í startholunum með aðhald nú þegar hjöðnun sæist á ýmsum vöruliðum á heimsmarkaði.
„Að sjálfsögðu. Það er mjög gott að Alþýðusambandið sé á vaktinni og fylgist með verðlagningu, það hafa allir gott af aðhaldi.“
Það væru þó fleiri þættir en verðlagsvísitala á hrávöru sem þurfi að horfa til - til að mynda verðhækkanir á orkuverði í Evrópu sem hafi valdið verðhækkunum hjá birgjum íslenskra innflutningsfyrirtækja.
„Sömuleiðis hækkun á umbúðum og flutningum og annað slíkt og þetta lengir lækkunarferilinn þegar hrávörurnar síðan lækka en að sjálfsögðu vonum við að verð fari lækkandi en eins og ég segi við höfum ekki séð mikil merki þess hjá alþjóðlegum byrgjum íslenskra innflutningsfyrirtækja. Það er hins vegar afskaplega ánægjulegt þegar maður horfir á verðþróun matvæla í Evrópu á árinu og eftir að þetta stríð byrjaði er að meðali í Evrópusambandsríkjunum 10,5% hækkun á matvælum en á Íslandi er það bara 5,5%. Það er miklu minna heldur en til dæmis í hinum norrænu ríkjunum og það er árangur sem ég held að við getum verið nokkuð ánægð með í erfiðri stöðu.“

En það sem stýrir meðal annars hækkun á umbúðaverði er verð á olíu en við sjáum að heimsmarkaðsverð á ýmsum hrávörum eins og til dæmis olíu hefur tekið að sjatna.
„Já, eins og ég segi, framleiðsluferlar geta verið langir þannig að hækkun á hrávöruverði er kannski ekki að hafa áhrif á heildsöluverð á tiltekinni vöru fyrr en einhverjum mánuðum síðar.“
Í fyrradag ræddi fréttastofa við samhæfingarstjóra Pepp Íslands á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt en hún talaði um „óbærilegan kostnað tilverunnar“ hjá þeim sem minnst hefðu milli handanna í verðbólguumhverfi. Ólafur sagðist sammála því að verðstöðugleiki væri gríðarlega stórt lífskjaramál.
„Ég held að það þurfi að horfa á það bæði í þessum kjarasamningum sem við erum að fara inn í að þar verði ekki teknar einhverjar ákvarðanir sem ýta undir verðbólguna í stað þess að reyna að dempa hana og ég held að stjórnvöld þurfi líka að gera sitt, við höfum verið satt að segja verið mjög hissa á því hvað við fáum litla hlustun á okkar tillögur um alls konar breytingar á tollum og gjöldum sem gætu virkilega stuðlað að því að lækka verð á nauðsynjum.“