Fótbolti

Ítölsku meistararnir upp að hlið toppliðsins með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Divock Origi skoraði þriðja mark AC Milan í dag.
Divock Origi skoraði þriðja mark AC Milan í dag. Claudio Villa/AC Milan via Getty Images

Ítalíumeistarar AC Milan unnu afar öruggan 4-1 sigur er liðið tók á móti Monza í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Með sigrinum lyfti liðið sér upp að hlið Napoli á toppi deildarinnar.

Brahim Diaz kom heimamönnum í forystu strax á 16. mínútu leiksins áður en hann skoraði annað mark sitt og annað mark heimamanna stuttu fyrir hálfleikshlé eftir stoðsendingu frá Divock Origi.

Origi var svo sjálfur á ferðinni eftir um 65 mínútna leik þegar hann kom heimamönnum í 3-0, en Filippo Ranocchia minnkaði muninn fyrir gestina fimm mínútum síðar og staðan því orðin 3-1.

Það var svo Rafael Leao sem gerði endanlega út um leikinn þegar hann kom heimamönnum aftur í þriggja marka forskot á 84. mínútu og niðurstaðan því 4-1 sigur AC Milan.

AC Milan situr nú í öðru sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir 11 leiki, jafn mörg stig og topplið Napoli sem á þó leik til góða. Monza situr hins vegar í 14. sæti deildarinnar með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×