Alexandra var í byrjunarliði Fiorentina og lék allan leikinn á miðri miðjunni. Það voru þó gestirnir í Sampdoria sem tóku forystuna snemma leiks og staðan var því 0-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Heimakonur jöfnuðu þó metin á 71. mínútu leiksins og aðeins mínútu síðar var liðið búið að taka forystuna. Gestunum tókst ekki að jafna metin á nýjan leik og niðurstaðan varð því 2-1 sigur Fiorentina.
Fiorentina er nú í öðru sæti deildarinnar með 18 stig eftir sjö leiki, jafn mörg og Roma sem trónir á toppnum en með verri markatölu. Sampdoria situr hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með níu stig.