Íslenski boltinn

Pálmi Rafn leikið sinn síðasta leik á ferlinum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pálmi Rafn spilaði sinn síðasta leik á ferlinum í kvöld.
Pálmi Rafn spilaði sinn síðasta leik á ferlinum í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Pálmi Rafn Pálmason lék í kvöld sinn síðasta leik á farsælum ferli er lið hans KR gerði 2-2 jafntefli við Víking í Fossvogi í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Pálmi verður í banni þegar lokaumferð deildarinnar fer fram um næstu helgi og var leikur kvöldsins því hans síðasti.

Pálmi Rafn verður 38 ára í nóvember en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis mun hann leggja skóna á hilluna eftir leiktíðina. Pálmi fékk að líta gult spjald í leik kvöldsins gegn Víkingi sem þýðir að hann mun vera í banni þegar KR mætir Stjörnunni í lokaumferð Bestu deildar karla um helgina.

Leikur kvöldsins var því sá síðasti hjá Pálma Rafni á ferlinum en hann á 21 árs feril að baki í meistaraflokki. Pálmi er Húsíkingur og hóf ferilinn í heimahögunum með Völsungi sumarið 2001.

Hann fór þaðan til KA árið 2003 og lék í þrjár leiktíðir áður en leiðin lá á höfuðborgarsvæðið þar sem hann samdi við Val og lék fram til ársins 2008 og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2007.

Hann fór frá Val til Stabæk og vann norska meistaratitilinn með liðinu árið 2008. Hann lék með þeim í norsku úrvalsdeildinni í fjórar leiktíðir áður en hann spilaði fyrir Lilleström í þrjú ár í sömu deild. Pálmi sneri heim og samdi við KR fyrir sumarið 2015 og hefur verið í Vesturbænum síðan. Hann vann einn titil með KR á sjö árum sínum þar, Íslandsmeistarartitilinn árið 2019.

Pálmi Rafn hefur unnið sem íþróttastjóri KR samhliða því að spila fyrir félagið síðustu misseri og mun eflaust halda áfram í þeirri stöðu í Vesturbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×