Frá þessu greinir Morgunblaðið en segir Guðlaug þó ekki hafa tekið lokaákvörðun hvað þetta varðar.
Í blaðinu segir að undanfarna daga hafi orðrómur verið á sveimi um mögulegt framboð Guðlaugs, sem hafi meðal annars verið tengt umdeildu vali á landsfundarfulltrúum í stöku félagi. Ekki er farið nánar út í það mál í blaðinu.
Morgunblaðið segir Guðlaug ekki hafa svarað sér undanfarna daga.
Kosið verður um forystu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 4. til 6. nóvember næstkomandi. Bjarni Benediktsson, núverandi formaður og fjármálaráðherra, sækist eftir endurkjöri.