Fótbolti

Hiti, högg og þreyta Haalands

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland náði ekki að skora í gærkvöld og í þriðja leiknum af síðustu fjórum tókst Manchester City ekki að skora.
Erling Haaland náði ekki að skora í gærkvöld og í þriðja leiknum af síðustu fjórum tókst Manchester City ekki að skora. Getty/Marcel ter Bals

Erling Haaland lék aðeins fyrri hálfleikinn þegar Manchester City gerði markalaust jafntefli við Dortmund í Þýskalandi í gærkvöld, í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, sagðist eftir leik ekki vita til þess að eitthvað alvarlegt hefði gerst þó að Haaland hefði vissulega fengið högg í leiknum.

Hann hefur skorað 22 mörk í fyrstu 15 leikjum sínum fyrir City en snerti boltann bara 13 sinnum í gær og átti aðeins eitt skot sem var varið, áður en honum og Joao Cancelo var skipt af velli í hálfleik.

„Ástæðan er þríþætt. Ég sá að hann var svo þreyttur. Einnig var hann með smávægilega inflúensu í líkamanum. Alveg eins og Joao sem var með hita,“ sagði Guardiola.

„Í þriðja lagi fékk hann högg á fótinn. Þess vegna gat hann ekki spilað í seinni hálfleik. Ég talaði við [læknateymið] í hálfleik og það hafði svolitlar áhyggjur, en ég sá að hann gat gengið nokkurn veginn eðlilega. Við sjáum til,“ sagði Guardiola sem horfði upp á sína menn mistakast að skora mark í þriðja leiknum af síðustu fjórum.

Stigið dugði City til að tryggja sér efsta sætið í sínum riðli og Dortmund tryggði sér 2. sætið, svo bæði lið verða með í 16-liða úrslitum keppninnar.

Næsti leikur City er á útivelli gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×