Lærisveinar Jürgen Klopp unnu öruggan 3-0 útisigur á Ajax í Meistaradeild Evrópu karla í fótbolta og tryggðu sér þar með farseðilinn í sextán liða úrslit keppninnar.
Það tók liðið úr Bítlaborginni dágóða stund í kvöld og brenndi Darwin Núñez af algjöru dauðafæri áður en Mohamed Salah kom gestunum yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu Jordan Henderson.
Liverpool gerði svo út um leikinn snemma í síðari hálfleik þegar Núñez bætti upp fyrir mistökin og skallaði hornspyrnu Andrew Robertson í netið. Aðeins þremur mínútum síðar lagði Salah boltann á Harvey Elliott sem skoraði með góðu skoti og staðan orðin 3-0 gestunum í vil. Varð hann þar með fyrsti táningurinn í sögu Liverpool til að skora í tveimur Meistaradeildarleikjum í röð.
19 - Harvey Elliott (19y 205d) has become the first teenager to score in consecutive UEFA Champions League appearances for Liverpool. Unfazed. pic.twitter.com/yZoqaAib2i
— OptaJoe (@OptaJoe) October 26, 2022
Sigurinn endanlega tryggir sæti Liverpool í 16-liða úrslitum keppninnar og þá gæti liðið náð toppsætinu fari svo að það leggi Napoli að velli í lokaumferð A-riðils.
Napoli, sem vann Rangers 3-0 í kvöld, er á toppi riðilsins með 15 stig á meðan Liverpool er í 2. sæti með 12 stig og Ajax þar fyrir neðan með þrjú stig á meðan Rangers er án stiga.