Fótbolti

Gáfu bjór en fengu slæma meðhöndlun í staðinn

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum gegn Sevilla á þriðjudaginn.
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum gegn Sevilla á þriðjudaginn. Getty/Fran Santiago

Danska knattspyrnufélagið FC Kaupmannahöfn hefur sent opinbera kvörtun til UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, vegna þess hvernig farið var með stuðningsmenn félagsins í Sevilla á þriðjudaginn, á leik liðanna í Meistaradeild Evrópu.

Þrír Íslendingar komu við sögu í leik liðanna á Spáni í vikunni, og varð Orri Steinn Óskarsson yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeildinni. Sevilla vann þó leikinn 3-0.

Þegar liðin mættust í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði gerðu þau markalaust jafntefli. Á þeim leik fengu stuðningsmenn Sevilla, sem ferðast höfðu til Danmerkur, gefins bjór frá FCK, við mikla kátínu.

Gestrisnin virðist ekki hafa verið alveg sú sama hjá spænska félaginu, miðað við tilkynningu FCK. Þar segir að stuðningsmenn FCK hafi alls ekki fengið þá meðhöndlun sem þeir hefðu átt að fá hjá spænskum löggæslumönnum og öryggisvörðum Sevilla.

Til að mynda hafi verið leitað þannig á stuðningsmönnum við komuna á leikvanginn að það gæti talist bæði ólöglegt og niðurlægjandi. Aðrir hafi upplifað harkalega meðferð og ósanngjarnar grunsemdir um að ætla sér eitthvað misjafnt.

FCK hefur síðustu daga safnað upplýsingum um það sem gekk á og nú sent erindi til UEFA um það með hve grófum hætti hafi verið tekið á stuðningsmönnum félagsins án nokkurrar sýnilegrar ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×