Körfubolti

„Virðist ekkert vera sér­stakur skot­maður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antonio Keyshawn Woods átti ekki sinn besta leik á Egilsstöðum.
Antonio Keyshawn Woods átti ekki sinn besta leik á Egilsstöðum. Körfuboltakvöld

Frammistaða Antonio Keyshawn Woods í tapi Tindastóls á Egilsstöðum í Subway deild karla í körfubolta á dögunum var til umræðu í síðasta þætti Körfuboltakvölds. Teitur Örlygsson telur leikmanninn einfaldlega ekki vera það góðan skotmann.

„Það var basl hjá Tindastól, sérstaklega sóknarlega. Settu aðeins 69 stig á töfluna og þeim vantaði vissulega lykilpósta og horfa kannski á Keyshawn Woods, erlendan leikmann sinn, sem lausn sóknarlega,“ sagði Hörður Unnsteinsson, þáttastjórnandi Körfuboltakvölds í fjarveru Kjartans Atla Kjartanssonar.

„Hattarmenn gerðu virkilega vel að taka hann út úr leiknum,“ bætti Hörður við áður en Matthías Orri Sigurðarson fékk orðið.

„Hann spilar svolítið hægt, þetta er svona áhugaverður karakter fyrir Kana-ígildi. Allt sem hann gerir er mjög vel stjórnað, veit alltaf hvert hann ætlar að fara en það gerist allt mjög hægt. Það gerir [Nemanja] Knezevic kleift að „trappa“ hann hátt upp á þriggja stiga línunni. Það á ekki að geta gerst en hann spilar þannig leik að það auðveldar mönnum á að loka á allar sendingalínur,“ sagði Matthías en Woods var með aðeins sex prósent skotnýtingu í leiknum.

„Það skein í gegn að honum leið ekki vel í seinni hálfleik að þurfa að skjóta öllum þessum skotum. Sjálfstraustið var farið,“ sagði Hörður og gaf Teiti Örlygssyni svo orðið.

„Hann var ekkert sérstakur í leiknum á undan á móti Njarðvík heldur. Sigtryggur Arnar [Björnsson] var ekki með og eflaust hefur það einhver áhrif á þetta [slakt gengi Woods] en það afsakar ekki að þú brennir af venjulegum skotum. Það virðist eitthvað vera að angra hann.“

Tölfræði Woods í undanförnum leikjum.Körfuboltakvöld

„Það sem ég er búinn að sjá af honum, þá virðist hann ekkert vera sérstakur skotmaður. Kemur sér oft í fín færi og er að komast á ágætis staði en nær ekki að klára,“ sagði Teitur jafnframt en umræðuna má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Virðist ekkert vera sér­stakur skot­maður



Fleiri fréttir

Sjá meira


×