Sport

Tók af sér hjálminn eftir snilldar snertimark og klúðraði leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DJ Moore tók af sér hjálminn þegar hann fagnaði snertimarkinu og það varð á endanum dýrkeypt.
DJ Moore tók af sér hjálminn þegar hann fagnaði snertimarkinu og það varð á endanum dýrkeypt. AP/John Amis

Leikmenn hafa sjaldan farið jafnfljótt úr því að vera hetja í það að verða skúrkur og NFL-leikmaðurinn DJ Moore um helgina.

DJ Moore hélt að hann hefði tryggt liði sínu Carolina Panthers sigurinn á móti Atlanta Falcons eftir að hafa skorað magnað snertimark.

Snertimarkið kom eftir mjög langa sendingu og mikil tilþrif útherjans. Hann jafnaði metin og aðeins var eftir fyrir Panthers menn að skora aukastigið sem oftast er formsatriði.

DJ Moore gerði hins vegar stór mistök í fagnaðarlátum sínum því hann tók af sér hjálminn inn á vellinum sem er stranglega bannað.

Hann fékk á sig refsingu og sparkið fyrir aukastigið færðist því mun lengra frá markinu og erfiðleikastuðull þess hækkaði til mikillar muna.

Svo fór að sparkarinn Eddy Pineiro, sem hefði farið létt með að sparka af 30 metra færi, klikkaði á vallarmarktilraun sinni frá 44 metrum.

Því varð að framlengja leikinn og þar hafði Atlanta Falcons liðið betur. Þeir unnu á vallarmarki.

DJ Moore var harðlega gagnrýndur á samfélagsmiðlum og af spekingum. Hann hefði átt sviðið og verið hlaðinn lofti hefði snertimarkið unnið leikinn en í staðinn var hraunað yfir hann.

Svo eru það hinir sem finnst þetta vera mjög ströng refsing fyrir þetta hugsunarleysi kappans.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×