Letitia James, ríkissaksóknari, höfðaði málið í september en hún hefur sakað Trump sjálfan og þrjú elstu börn hans, þau Donald Trump yngri, Ivönku Trump og Eric Trump, um umfangsmikil skatt- og bankasvik.
Auk þeirra hefur mál einnig verið höfðað gegn Allen Weisselberg, fyrrverandi fjármálastjóra fyrirtækisins, og Jeffrey McConney, sem hefur einnig starfað lengi innan fyrirtækisins.
Málið snýr meðal annars að eignum Trumps í New York, Chicago og Washington D.C. og því að Trump og aðrir sem að málinu koma hafi ýmist ýkt virði eigna þeirra til að fá hagstæðari lán eða gert lítið úr þeim til að komast hjá skattgreiðslum.
Sjá einnig: Saka Trump og börn hans um umfangsmikil fjársvik
Ekki er um sakamál að ræða en James fer fram á að Trump verði gert að greiða 250 milljón dala í sektir og að Trump og fyrirtækinu verði meinað að kaupa eignir í New York í minnst fimm ár.
Þá vill hún einnig að honum og öðrum sem málið beinist gegn verði meinað að taka lán í New York á næstu fimm árum og að yfirumsjón fyrirtækisins verði tekin yfir af óháðum aðilum.
Dómarinn Arthur Engoron samþykkti kröfum James um að fyrirtækið Trumps yrði vaktað en samkvæmt frétt Washington Post felur úrskurðurinn í sér að Trump-fjölskyldan getur ekki selt eða flutt eignir úr fyrirtækinu án þess að láta vita af því með tveggja vikna fyrirvara.
Fyrirtækið mun greiða viðkomandi eftirlitsaðila og hann mun vakta hvort reynt verði að færa eignir úr fyrirtækinu og greina fjárhagsskýrslur þess.
James krafðist þess að fyrirtækið yrði vaktað vegna ummerkja um að forsvarsmenn fyrirtækis Trump hafi gripið til aðgerða með því markmiði að komast hjá refsingu og mögulegum sektum. Meðal annars með því að stofna nýtt félag sem heitir Trump Organization II. Það félag var stofnað í skattaparadísinni Delaware og var stofnað þann 21. september, sama dag og James tilkynnti lögsókn sína.
Í aðdraganda úrskurðar Engoron hefur Trump farið hörðum orðum um dómarann og kallaði hann meðal annars grimman, hlutdrægan og kvikindislegan.
Í nýlegu dómsskjali segir James að forsvarsmenn fyrirtækisins noti enn viðskiptahætti sem þau vita að séu ólögmætir.
Ríkissaksóknari Manhattan segir að þar sé enn verið að rannsaka hvort tilefni sé til á ákæra Trump vegna þessara meintu skatt- og bankasvika.