Fótbolti

Aron með tvö af punktinum í stórsigri Horsens

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron skoraði tvö af vítapunktinum.
Aron skoraði tvö af vítapunktinum. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Aron Sigurðarson skoraði tvö vítamörk í 5-1 sigri Horsens á Randers í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Horsens var í tíunda sæti af tólf fyrir leik kvöldsins í afar jafnri deildinni. Liðið komst yfir með sjálfsmarki Adams Anderson á 35. mínútu en þremur mínútum síðar var staðan 2-1 fyrir Horsens eftir jöfnunarmark Marvin Egho og mark Jonasar Gemmer fyrir Horsens.

Staðan var 2-1 í hálfleik en Aron skoraði af vítapunktinum á 49. mínútu og aftur á 71. mínútu. Varnarmaðurinn Mikkel Lassen innsiglaði þá 5-1 sigur Horsens í uppbótartíma.

Horsens fór upp fyrir Bröndby í níunda sæti deildarinnar með 21 stig eftir sigurinn en Randers er áfram í þriðja sæti með aðeins 23 stig sem er til marks um hversu jöfn deildin er.

Atli Barkarson spilaði þá allan leikinn í vinstri bakverði SönderjyskE sem tapaði 1-0 fyrir Fremad Amager í dönsku B-deildinni. SönderjyskE er með 27 stig í þriðja sæti, sjö stigum frá toppliði Vejle.

Þórir Jóhann Helgason var ónotaður varamaður í 1-1 jafntefli Lecce við Udinese í Udine í ítölsku A-deildinni í fótbolta. Udinese er í 7. sæti með 23 stig en Lecce með níu stig í 17. sæti, efsta örugga sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×