Körfubolti

„Eins og þeim finnist ekkert gaman að spila saman“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helgi Már Magnússon er þjálfari KR. Hann þarf að finna lausn á vandamálum liðsins og það fljótt ef ekki á illa að fara.
Helgi Már Magnússon er þjálfari KR. Hann þarf að finna lausn á vandamálum liðsins og það fljótt ef ekki á illa að fara. Vísir/Bára Dröfn

Farið var yfir slaka frammistöðu KR gegn Hetti á heimavelli í síðustu umferð Subway deildar karla í körfubolta í Körfuboltakvöldi á föstudaginn var. Brynjar Þór Björnsson, fyrrverandi leikmaður KR og margfaldur Íslandsmeistari, segir að það sé eins og leikmönnum finnist ekki gaman að spila saman.

„Tapaðir boltar trekk í trekk, kærulausar sendingar. Taktleysi einhvern veginn,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, um frammistöðu KR í leiknum. Í kjölfarið fékk Brynjar Þór orðið en hann þekkir hvern krók og kima í Vesturbænum.

„Það er eins og þeim finnist ekkert gaman að spila saman. Það skín alveg í gegn finnst mér. Það vantar einhvern sem er í vörninni að tala. Sá sem hefði verið fullkominn í þetta hlutverk er Dani Koljanin, Króatinn sem var í KR liðinu í fyrra. Hann var ekkert frábær í körfubolta en orkan sem hann kom með gerði það að verkum að það var auðveldara að spila vörn.“

„Það gerir allt auðveldara ef menn eru að tala saman og það sé samtal á milli leikmanna, bæði sóknar- og varnarlega.“

„Þetta er vandamálið þegar þú færð fleiri útlendinga sem hafa aldrei spilað saman. Þú ert með happdrættiskúlur og svo ertu að draga úr. Veist ekkert hvort þeir smelli saman,“ sagði Brynjar Þór að endingu.

Klippa: Körfuboltakvöld: Taktleysi KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×