Innlent

Framganga MAST í meintu dýraníðsmáli hafi „farið úr hófi“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sævar Þór Jónsson, lögmaður, segir hrossin sem umbjóðandi hans á ekki hafa verið vannærð eða vanrækt.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður, segir hrossin sem umbjóðandi hans á ekki hafa verið vannærð eða vanrækt. Vísir/Arnar

Lögmaður konu, sem er eigandi hrossa í meintu dýraníðsmáli í Borgarfirði, segir Matvælastofnun hafa farið of geyst í málinu. Konan hafi ekki verið nægilega vel upplýst um gang mála og hrossin hafi verið vel haldin.

Meint dýraníð í Borgarfirði hefur verið til mikillar umfjöllunar í haust en málið hófst í ágúst þegar sveitungar vöktu athygli á málinu.

Umsjáraðilum hrossanna var gert af Matvælastofnun að hleypa hrossunum út á beit í haust en þau höfðu þá verið innilokuð um langt skeið. Þeim var þá gert að fóðra hrossin samhliða en sinntu því ekki sem skildi samkvæmt MAST og þau svipt vörslu yfir hrossunum.

Þrettán hross í umsjá fólksins voru felld í kjölfarið og síðan hefur sauðfé verið fjarlægt af sama bæ og MAST með illa haldna nautgripi á bænum í eftirliti.

Þórunn Björg Bjarnadóttir, landbúnaðarverkakona, hefur komið að ræktun hrossanna og umsjá þeirra ásamt dóttur sinni og bónda í Borgarfirði. Þær mæðgur voru jafnframt varaþingmenn Flokks fólksins en sögðu af sér varaþingmennsku vegna málsins.

„Við höfum sent inn bréf til MAST þar sem við erum að kvarta yfir hvernig farið er að málinu af þeirra hendi,“ segir Sævar Þór Jónsson lögmaður Þórunnar. 

Skortur hafi verið á upplýsingagjöf á vegum MAST til Þórunnar.

Hvað eruð þið ósátt með?

„Við erum ósátt með það, hvað varðar minn umbjóðanda, að hún hafi ekki fengið vitneskju eða upplýsingar um stöðu málsins, þegar kemur að því að taka dýrin,“ segir Sævar. 

„Þarna voru hross sem hún átti og taldi að væru alla vega í góðum holdum og taldi ekki þörf á þessum aðgerðum.“

Málið verði að leysa.

„Mínum umbjóðanda er umhugað um það að hún fái dýrin til baka og henni finnst framgangan í þessu máli hafa farið úr hófi.“


Tengdar fréttir

Sauðfé fjarlægt af bænum og aðgerðir vegna nautrgipa langt komnar

Matvælastofnun hefur gripið til aðgerða vegna meints dýraníðs á bóndabæ í Borgarfirði þar sem grunur leikur á að illa hafi verið komið fram við dýr. Starfsmenn stofnunarinnar hafa áður tekið sauðfé af bænum en stutt er síðan hestar voru teknir þaðan og þeim lógað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×