Viðskipti innlent

Stund­vísi innan­lands­flugs Icelandair 88 prósent í október

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair fagnar nýliðnum mánuði. Myndin er samsett.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair fagnar nýliðnum mánuði. Myndin er samsett. Vísir/Vilhelm

Flutningatölur flugfélagsins Icelandair frá nýliðnum októbermánuði sýna töluverða farþegaaukningu á milli ára. Auk þess er stundvísi félagsins í innanlandsflugi 88 prósent í mánuðinum sem um ræðir.

Heildarfjöldi farþega Icelandair í október jókst um 127 þúsund á milli ára en farþegarnir voru 333 þúsund talsins í ár miðað við 206 þúsund í fyrra. Þá er heildarfjöldi farþega félagsins það sem af er ári kominn yfir þrjár milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Farþegar í millilandaflugi voru nú 307 þúsund miðað við 181 þúsund árið 2021 en af þeim stefndu 133 þúsund til Íslands, 48 þúsund frá Íslandi og voru tengifarþegar 166 þúsund talsins.

Eilítil aukning var á farþegafjölda í innanlandsflugi í októbermánuði en hún var 26 þúsund í ár miðað við rúmlega 25 þúsund í fyrra.

Stundvísi í innanlandsflugi nam 88 prósentum í október og er á uppleið. Þar að auki var stundvísi í millilandaflugum 80 prósent en ekki eru gefnar upp samanburðartölur frá sama mánuði síðasta árs.

Haft er eftir forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogasyni þar sem hann segir leiðakerfi félagsins hafa náð fyrri styrk.

„Það er ánægjulegt að sjá að nú í októbermánuði hefur leiðakerfið okkar náð fyrri styrk. Flugframboð var á pari við framboðið á sama tíma 2019 og það sem af er ári höfum við flutt yfir þrjár milljónir farþega. Þá höfum við einnig bætt stundvísi í innanlandsfluginu en eins og fram hefur komið höfum við farið í markvissar aðgerðir til að bæta áreiðanleika og þjónustu í innanlandsflugi að undanförnu,“ sagði Bogi Nils Bogason.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×