Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt var meðal annars fjallað um starfsemi Skógræktarfélagsins en borgarstjórn Reykjavíkur fól félaginu á sínum tíma umsjón með Elliðavatnsjörðinni í tengslum við uppgræðslu Heiðmerkur.
„Núna er mjög mikið vaxtarskeið í skóginum. Greniskógurinn í Heiðmörk tvöfaldar lífmassann sinn fimmta hvert ár,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Í rjóðri skammt frá Elliðavatnsbænum er komin sögunarmylla. Hér stunda menn skógarhögg.
„Jú, heldur betur, eins og þið sjáið hérna fyrir aftan okkur. Við erum að fella svona 200 til 300 rúmmetra á ári og þyrfti að gera meira,“ segir Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk.
Drumbarnir eru sagaðir niður í borðvið sem nýtist meðal annars í veggi og gólf.
„Svo erum við með verslun þar sem við seljum bæði borðvið og bolvið og eldivið og kurl,“ segir Auður.
Sævar sýnir okkur gólffjöl eða parket.
„Já, þetta var sett á hús, hundrað fermetra hús, og lítur mjög vel út,“ segir hann.

Hér eru framleiddir hátt í tvöhundruð rúmmetrar af eldivið á ári. Utanhúss er starfsnemar frá landbúnaðarháskóla í Frakklandi að fletta berki af trjábolum, sem fara eiga í húsvegg.
Svo sýnir hann okkur flaggstangir þar sem búið er að renna toppana. Einnig þurrkuð borð sem verða að veggþiljum. Og Heiðmörkin er meira að segja farin að gefa sér gilda bjálka. Upp í 20 x 20 sentímetra í þvermál og sex metra langa.
Í þættinum Um land allt er fjallað um samfélagið við Elliðavatn. Þáttinn má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: