Íslenski boltinn

Heimir snýr „heim“ í Kaplakrika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það stefnir allt í að Heimir Guðjónsson muni taka við FH á nýjan leik.
Það stefnir allt í að Heimir Guðjónsson muni taka við FH á nýjan leik. Mynd/Daníel

Talið er að Heimir Guðjónsson verði tilkynntur sem nýr þjálfari FH í Bestu deild karla í fótbolta á morgun. Heimir stýrði FH lengi vel og var liðið einkar sigursælt undir hans stjórn.

Fótbolti.net greinir frá en þar segir að sérstakt stuðningsmannakvöld FH verði haldið annað kvöld.

„Næsta tímabil byrjar núna! Við blásum til veislu fyrir stuðningsfólk FH í Sjónarhóli þriðjudagskvöldið 8. nóv klukkan 20:30. Nýir meðlimir þjálfarateymisins verða kynntir til sögunnar og gefst stuðningsfólki tækifæri til að heyra frá þjálfurunum og kynnast af eigin raun því hungri sem býr í þeim,“ segir í auglýsingu fyrir kvöldið.

Sigurvin Ólafsson mun að öllum líkindum aðstoða Heimi en hann var ráðinn inn sem aðstoðarmaður Eiðs Smára Guðjohnsen síðasta suamr og tók svo við eftir að Eiður Smári var látinn fara.

Heimir þekkir vel til í Hafnafirði eftir að hafa verið leikmaður, aðstoðarþjálfari og aðalþjálfari liðsins. Undir hans stjórn varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Síðan þá hefur Heimir stýrt HB í Færeyjum, þar sem liðið vann tvöfalt, ásamt því að gera Val að Íslandsmeisturum sumarið 2020.

Heimir var rekinn frá Val í sumar en nú virðist allt benda til þess að hann sé á leið „heim“ ef svo má að orði komast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×