Viðskipti innlent

Vilja greiða 24 milljarða króna út til hlut­hafa

Atli Ísleifsson skrifar
Hluthafafundurinn verður haldinn þann 1. desember næstkomandi.
Hluthafafundurinn verður haldinn þann 1. desember næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Stjórn Origo hefur lagt fram tillögu um að greiða samtals 24 milljarða króna út til hluthafa og að hlutafé félagsins verði þá lækkað um 295 milljónir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn þar sem boðað er til rafræns hluthafafundar þann 1. desember næstkomandi.

Þar segir að tillagan feli jafnframt í sér breytingartillögu á grein 2.1. í samþykktum félagsins, þannig að hlutafé félagsins lækki úr 435.000.000 krónum í 140.000.000 krónur, til samræmis við hlutafjárlækkunina.

Í síðasta mánuði var greint frá því að Origo hafi selt 40 prósenta hlut sinn í Tempo, íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem stofnað af starfsfólki TM Software, á 195 milljónir Bandaríkjadala í reiðufé, jafnvirði um 28 milljarða króna.


Tengdar fréttir

Líklegt að megnið af söluverði Tempo verði greitt til hluthafa Origo

Líklega verður megnið af söluverði Origo á Tempo greitt til hluthafa. Það er þó ekki hægt að útiloka að félagið nýti fjármunina til að fjárfesta í öðrum félögum eða sameinist. Ef fjárhæðin verður öll greitt út til hluthafa verður Origo langminnsta félagið á Aðallista Kauphallarinnar og markaðsvirðið um sex til tíu milljarðar króna.

Origo selur hlut sinn í Tempo á 28 milljarða

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur gengið frá skuldbindandi samkomulagi um sölu á öllum 40 prósenta hlut sínum í Tempo fyrir 195 milljónir Bandaríkjadala í reiðufé, jafnvirði um 28 milljarða króna. Kaupandinn er bandaríski tæknifjárfestingarsjóðurinn Diversis Capital en söluandvirði hlutarins er næstum jafn mikið og núverandi markaðsvirði allrar Origo-samstæðunnar í Kauphöllinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×