Samkvæmt heimildum Vísis verður Heimir aðalþjálfari liðsins og Sigurvin hans hægri hönd. Sigurvin var aðstoðarmaður Eiðs Smára Guðjohnsen í sumar en stýrði liðinu í lokaleikjum tímabilsins eftir að Eiði var vikið til hliðar.
Heimir snýr því aftur til Fimleikafélagsins en hann var rekinn frá félaginu árið 2017. Á tíma Heimis með félagið varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari.
Hávær orðrómur var um að Heimir ætti að taka við FH-liðinu þegar lokakafli Bestu-deildarinnar var fram undan og Eiði hafði verið vikið til hliðar. Sá orðrómur átti ekki við rök að styðjast og FH-ingar töluðu ekki við þjálfarann fyrr en eftir tímabilið.
Heimir hefur verið atvinnulaus síðan hann var látinn fara frá Valsmönnum fyrr í sumar.